París. Í leigubíl með sir Alex.

Í gærmorgun fékk ég fjögur tölvubréf á sama klukkutímanum og öll höfðu þau það sammerkt að vitna í dagbókarfærslur mínar hér í París. Ég hugsaði með mér, og sennilega ekki í fyrsta skipti, að ef ég héldi ekki þessa opinberu dagbók myndu útlöndin og gleymskan gleypa mig með húð og hári svo ég hyrfi fyrir þeim sem þekkja mig eða þekktu mig. En þökk sé Kaktusnum var ég minntur á, frá fjórum ólíkum einstaklingum, að ég var enn til, ég lifi enn í höfði þeirra. Það gerði mig glaðan. Svo kom fimmta tölvubréfið á sama klukkutíma: Redefine yourself in 2020 var yfirskriftin. Hmm!

Ég undirbý brottför; ég er búinn að læsa og slökkva í Batmaníbúðinni og nú sit ég hjá hipsterunum vinum mínum til að fá síðasta kaffibolla ferðarinnar og auðvitað ristað brauð með osti svo ég hafi eitthvað í maganum þegar ég yfirgef Frakkland fljúgandi.

Ég veit ekki hvort kominn sé tími ferðauppgjörs. Þarf að gera svona ferð upp? Ég get að minnsta kosti sagt að mælanlegi hluti ferðarinnar; sá sem snýr að afköstum gekk fullkomlega upp. Markmiðum náð og meira en það. Ég hafði verið hræddur um að hafa sett markið of hátt áður en ég lagði af stað; að ég ætti ekki möguleika að ná takmarkinu og yrði vonsvikinn og niðurbeygður. En ég nú er bæði stoltur og ánægður að hafa náð því sem ég setti mér.

Nú panta ég mér UBER-bíl til að flytja mig til CDG-flugvallarins í útjaðri Parísar. Það verður spennandi að sjá hvaða bíl ég fæ.

15 mínútum síðar: Mér til sárra vonbrigða var engan UBER-bíl að fá á mínu svæði og því varð ég að hlaupa upp á aðalgötuna til að fanga leigubíl og það gekk hratt fyrir sig. Ég var ekki einu sinni búinn að taka mér almennilega stöðu þegar Dacia-leigubíll keyrði upp á stéttina til mín, eins og bílstjórinn hefði yfirskilvitlegar gáfur. Ég varð að sannfæra mig um að bílstjórinn ætlaði að taka mig upp, ekki einhverja aðra sem biðu. En hann veifaði mér ákaflega að koma inn í bílinn og ég settist í aftursætið.

Ég tek það strax fram að ég er snobbaður þegar kemur að leigubílum. Ég vil setjast í þægilegan bíl, hljóðlátan og mjúkan. Það er skilgreiningin á leigubíl í mínum huga að maður borgar ekki einungis fyrir akstur heldur þægilegan akstur. Í slíkum bíl gæti ég íhugað að keyra alla leið til Danmerkur. En þetta var Dacia-bíll og í mínum huga í sama flokki og Skoda og það eru ekki leigubílar. Svo ég settist nokkuð treglega upp í þessa druslu.

Þegar ég hafði komið mér og farangri mínum almennilega fyrir í aftursæti bílsins hrópaði bílstjórinn óþarflega hastur: „Hvert er ferðinni heitið?“
„Út á flugvöll, þakka þér fyrir. CDG, monsieur.“
„Hvaða terminal?“ hrópaði maðurinn í framsætinu og nú allt í einu uppgötvaði ég að bílstjórinn var enginn annar en sir Alex Ferguson, gamli knattspyrnustjórinn. Það runnu á mig tvær grímur. Ekki var sir Alex að keyra Dacia-leigubíl í París? En þegar ég sá gömlu adidas-fótboltaskónna í framsætinu hætti ég að efast.
„Hvaða terminal?“ endurtók hann reiðilega og nú var ég hræddur um að hann ætlaði að berja mig í hausinn með fótboltaskónum, slík var heiftin í röddinni.
„Terminal eitt, monsieur?“ sagði ég auðmjúkur.
„Eitt?“ hrópaði hann.
„Já, terminal eitt, uno (ég mundi ekki í fátinu hvernig maður segir einn á frönsku.)
„Terminal 1?“ endurtók sir Alex og það var svo mikill efi og tortryggni í raddblænum að ég fór sjálfur að efast um að terminal eitt væri hinn rétti brottfararstaður.
„Já, Eitt. un, uno, one.“ sagði ég og reyndi að hljóma sannfærandi.
Og loks ók sir Alex af stað. (Í ljós kom á fyrstu metrum ferðarinnar að mat mitt á bílnum var rétt; það skrölti og ískraði í hurðum og innréttingu og hávaðinn frá veginum ætlaði að æra mig. Þetta var ekki leigubíll.)

Ég laumaðist nú til að gera tvennt:
Númer 1: ég laumaðist til að skoða farmiðann til að athuga hvort terminal 1 væri ekki hinn rétti brottfararstaðir (sir Alex var svo efins). Jú, það var rétt. Hvaðan kom allur þessi efi?
Númer 2: ég laumaðist til að taka mynd af bílstjóranum mínum, sir Alex. Ég var viss um að ég mundi ekki sjálfur – í framtíðinni þegar ég skoðaði dagbókina – trúa því að sjálfur fótboltastjóri fótboltastjóranna væri ökumaður Dacia-leigubíls í Frakklandi á gamalsárum. (myndin er hér að ofan)

ps ég ætlaði að reyna ná mynd af gömlu adidas-fótboltaskónum en ég þorði ekki að hreyfa mig of mikið í aftursætinu, ég hefði örugglega fengið áminningu um að sitja kyrr.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.