Espergærde. Birta dagsins

Ég sá það strax og ég lagði af stað í gönguferð mína til skrifstofunnar – eftir vikufjarveru – að ljósið var annað en síðast þegar ég gekk sömu leið. Bara á þessum sjö dögum er morgunbirtan önnur, meira ljós, meiri dagur snemma morguns, og mig langar næstum að segja meira vor. En það er auðvitað bara rugl að tala um vor í janúar. En morguninn var mildur og ljósið fallegt þegar ég rölti rólega niður á skrifstofu. Það tekur mig nákvæmlega tíu mínútur að ganga frá heimili mínu og til vinnustaðarins.

Eftir þessa stuttu fjarveru fannst mér ég þurfa að taka mynd af skrifstofubyggingunni minni. Ég saknaði skrifstofunnar svo sem ekki en ég kveikti ljós þar inni og setti kaffivélina í gang, gekk út fyrir og stillti mér upp á gangstéttinni andspænis skrifstofunni og smellti af (sjá myndina að ofan).
„Hvað ertu að gera?“ var spurt fyrir aftan mig.
Ég hafði ekki tekið eftir manni sem kom fyrir götuhornið þegar ég var að stilla myndavélina.
„Ég er að taka mynd af skrifstofunni,“ sagði ég.
„Já,“ sagði maðurinn gekk áfram.

Nú snýst líf mitt um að halda sama vinnu-dampi og þegar ég var í París. Ég þarf að vísu fyrst að ganga frá einni þýðingu, kíkja á prófarkir, en að öðru leyti hef ég rutt öllu úr veginum svo ég geti brunað áfram á minni litlu skrif-eimreið.

Góður maður sendi mér fallegt bréf í gær og sagði mér frá því að ekki sé sjálfsagt að afkasta miklu þótt maður hafir góðar aðstæður til að einbeita sér – eins og ég hafði í París í síðustu viku. Þegar hann sjálfur fær slík tækifæri – hann er upptekinn maður með uppeldi smábarna á sinni könnu – verður honum yfirleitt ekkert úr verki. Til dæmis bauðst honum fínt hús í útlöndum til að vinna en þá forðast hann eins og heitan eldinn að sinna því sem hann er kominn til að vinna að. Hann gerði allt annað en yfirlýst markmið ferðarinnar var. Þetta hef ég heyrt áður. Ég man til dæmis eftir lýsingu Friðgeirs Einarssonar á lífi sínu sem rithöfundur. Það var enginn dans á rósum. En ég er óskaplega feginn að ég get einbeitt mér þegar ég dvel í vinnubúðum, annars fengi ég svo mikið samviskubit. Samviskubit er minn veikleiki, hið eilífa samviskubit.

ps. Nú mundi ég allt í einu. Ég á stefnumót í dag. Við Sus þurfum inn til Kaupmannahafnar með lesinni klukkan tvö. Johannes Riis, forleggjarinn virðulegi, heldur afmælismóttöku á Gyldendal. Hann skrifaði í síðustu viku til að biðja okkur um að koma.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.