Espergærde. Bústaður heimspekings við vatn

Gunnar Þorri, minn gamli samstarfsmaður, skrifaði grein um daginn á RUV.is til að kynna nýjan útvarpsþátt sem hann hyggst flytja á næstu vikum. Þann útvarpsþátt ætla ég að heyra. Þetta er góð grein og Gunnar Þorri hefur ekki langt að sækja pennafimi sína. Ég varð eiginlega undarlega glaður þegar ég las pistilinn hans Gunna, glaður fyrir hönd höfundarins. Skrif Gunnars Þorra vakti mig til umhugsunar bæði um gamlar minningar og líka aðferðir fólks til að miðla þekkingu og áhugverðum upplýsingum. Ég fékk það á tilfinninguna þegar ég hafði lesið hálfa greinina að hér gæti væri upphafið að einhverju miklu.

Gunnar Þorri segir skemmtilega frá fundi sínum með Arnóri Hannibalssyni, heimspekingi og háskólakennara:
„Arnór orkað á mig eins og persóna upp úr sögu eftir rússneska skáldajöfurinn. Það var nóg að hugsa til þessara fráneygu augna sem horfðu rannsakandi á allt sem fyrir þeim varð en voru að sama skapi mistruð, eflaust sýkt af gláku eða öðru meini, og minntu fyrir vikið á fullt tungl á skýjuðum morgunhimni.“
Þessi fína lýsing Gunnars Þorra vakti í huga mínum mynd af Arnóri þar sem hann stóð við kennarapúltið í Aðalbyggingu háskólans þegar ég var á fyrsta ári háskólanáms. Hann flutti langar einræður sem átti að undirbúa okkur nemendurna fyrir próf í heimspekilegum forspjallsvísindum. Arnór hafði líklega ekki áhuga á hinum þögla hópi nýnema sem sat hjá honum inni í kennslustofunni. Hann talaði ekki við okkur, miklu frekar framhjá okkur og yfir. Að minnsta kosti var tal hans ofar mínum skilningi. Ég greip ekki orð af því sem hann sagði, og hafði engar forsendur til þess. Ég hafði engan bakgrunn í heimspeki og vissi ekkert í minn haus. Þar að auki lá Arnóri mjög lágt rómur, röddin var klemmd eins og hann hefði eitthvað fast í hálsinum sem hindraði orðin á leið sinni upp og út í gegnum munninn. Til að gera illt verra beindi hann tali sínu annað hvort út um gluggann eða í átt að kennaratöflunni. En af og til tók ég eftir að hann gaut þessum fráneygu augum á mig og þá fór um mig því ég var viss um að hann sæi í gegnum mig og vankunnáttu mína.

Heimspekileg forspjallsvísindi varð mín nýja martröð. Ég varð hræðilega áhyggjufullur yfir þessu námskeiði, ég var viss um að ég ætti aldrei eftir að standast prófið. Að falla á prófi var bein atlaga að sjálfsmynd minni; fall hins duglega og samviskusama námsmanns. Ég hafði aldrei á ævinni ekki staðist próf og nú var prófið í heimspekinni orðin stærsta ógn við tilveru mína. Arnór boðaði nær vikulega að kennslubókin sem hann hafði skrifað eða var að skrifa fyrir þetta námskeið væri á leið í Bóksölu stúdenta. Í mínum huga var bókin bjargtaug mín, ef ég fengi bókina og gæti lesið um það sem Arnór tuldraði upp við töflu þá gæti ég skilið og gæti þar með náð prófinu. En bókin kom ekki. Viku eftir viku mætti ég í bóksölu stúdenta og spurði eftir bókinni. Nei, bókin var ekki komin. Það leið að prófi og áhyggjur mínar uxu. (Ég vakna enn um nætur upp frá samskonar draumi og mig dreymdi svo oft þennan vetur; að ég væri ólesin á leið í próf þar sem ég kunni ekki neitt.)

Mér fannst allt dularfullt við þennan aldna kennara minn í heimspeki. Hann myndaði alls ekkert samband við neina af nemendunum og á göngunum í frímínútum heyrði ég samnemendur mína segja sögur um Arnór sem ég vissi ekki hvort að voru sannar eða hvort þær voru hreinn uppspuni. Ein sagan sem heillaði mig snerist um að Arnór byggi einn í Volkswagen rúgbrauð upp við Rauðavatn. Í þessum sendibíl átti Arnór að lifa og starfa, langt frá öðru fólki. Bíllinn var hlaðinn bókum og svo þungur að Arnór hafði gefist upp á að reyna að flytja sig um set. Guli Volkswagen rúgbrauðbíllinn sem var heimili heimspekingsins sat fastur undir hlassi sínu og honum yrði ekki þokað. Oft þennan vetur þegar kalt var í veðri varð mér hugsað til heimspekikennara míns skjálfandi úr kulda inni á milli bókastaflanna þar sem naprir vindar frá Rauðavatni vögguðu þessu litla hýbýli hans.

En kennslubókin kom aldrei á meðan ég stundaði nám í heimspekilegum forspjallsvísindum. Ég náði prófi, en það var ekki vegna þess að ég kunni námsefnið. Allt annað bjargaði mér; mínir sístarfandi verndarenglar og örlátur prófdómari.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.