„Enginn mánuður ársins getur verið jafn eilífur og janúar.“ Þetta er upphaf að bók sem ég valdi af handahófi og opnaði í morgun. Þetta er sem sagt fyrsta setning bókarinnar. Ég fór nefnilega að skoða upphafssetningar bóka. Ekki af neinu sérstöku tilefni en ég hafði bara tekið eftir því, lært þetta af lestri bóka, að tíminn eða árstíðirnar eru oft notaðar til að opna sögu.
1. Það var árið 1991 að ég fékk styrk úr japönskum sjóði …
2. Dagurinn byrjar.
3. Þegar ég var í Amsterdam dreymdi mig mömmu í fyrsta skipti svo árum skipti.
4. Íbúar Beauval urðu fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í lok desember árið 1999.
5. Árið 1870 eða þar um kring máttu bændur á Nýja-Sjálandi þola mikinn uppskerubrest.
6. Ég veit ekki hvaða dagur er.
Ég vildi svo sem ekki segja svo margt með þessu, ég tók bara eftir því að velja tímann sem upphafsstað sögu er algengt val hjá rithöfundum. Ekki get ég lagt mat á hvort það sé gott eða slæmt, en það er „mikið tekið,“ eins og sölumaðurinn í gardínubúðinni í Ármúlanum er vanur að segja um vinsælar vörur.
Og enn um tímann: Í dag er föstudagur og ég á harla erfitt með að trúa því að vikan sé þegar liðin, flogin burt frá mér og kemur aldrei aftur. Ekki vildi ég vara án þessarar viku.