Espergærde. Neitað að deyja

Ég tók eftir þessari gömlu konu um leið og ég kom inn í lestina á leið minni inn til Kaupmannahafnar. Hún hafði óvenju lífleg augu sem fylgdust með mér feimnislaust koma niður gang lestarvagnsins í leit að hentugu sæti. Ég valdi sæti andspænis gömlu konunni því ég fann að hún var forvitnileg og ég hafði áhuga á að fylgjast með henni þessa hálftímalöngu lestarferð. Svona get ég verið forvitinn.

Eins og oft áður hafði ég rétt fyrir mér (grín). Hún var forvitnileg kona. Við vorum rétt lögð af stað frá brautarpallinum þegar hún tók upp hnausþykka bók sem ég sá ekki betur en væri eftir hollenska sagnfræðinginn Gert Maak. Bókin sem hún lagði á borðið á milli okkar var ekki minna en 1000 blaðsíður. Hún tók líka upp blýant sem hún notaði til að skrifaði athugasemdir með ofursmáum stöfum á spássíuna.

Ég tók eftir að hún var búin að lesa meira en áttahundruð síður í bókinni og margar spássíurnar voru þéttskrifaðar athugsemdum og vangaveltum konunnar.

Þetta var óvenjuleg sjón; kona ekki undir áttrætt með grátt hár bundið í fléttum ofan á höfðinu grúfir sig yfir sagnfræðiverk og skrifar hjá sér athugasemdir.

Það vill svo til að ég hef sjálfur lesið þessa bók og var því vel samræðuhæfur um bókina svo ég vogaði mér að hefja samtal við konuna.
„Þetta er vel skrifuð bók,“ sagði ég.
Hún leit upp og horfði rannsakandi á mig. „Já,“ sagði hún hugsi. „Kannski ekki svo vel skrifuð, ágætlega skrifuð, en mér þykir hugmyndin að baki bókinni bara góð. Vandinn er að hann leyfir sér ekki að dvelja svo lengi við hvert efni, hann skautar yfir of margt þykir mér … en efnið er líka viðamikið. Bókin er löng og mætti kannski ekki vera lengri nema hún væri í tveimur bindum,“ sagði hún. Hún talaði hægt.

Og hvað var svona merkilegt við þetta? hugaði ég og áttaði mig á að maður á ekki að venjast að mannvera á síðustu árum ævinnar sé á einhvern hátt áhugasöm um að bæta sig, læra, verða vitrari … Fólk á þessum árum er oft í manns huga fólk sem smám saman er að gefast upp fyrir aldrinum og bíður dauðans fyrir framan sjónvarpið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.