Espergærde: Afsakið, aldrei aftur ;)

Að segja fólki til syndanna … að segja fólki til syndanna … til eru einstaklingar sem til góðs eða ills hafa tekið að sér leiðbeina öðrum af glapstigum sínum og inn á hinn rétta veg, dyggðarinnar veg. Það er auðvitað göfugt … ef maður nennir að skipta sér af hrösun annarra. Í gær fékk ég bréf þar sem mér var sagt til syndanna, sami maður hefur áður, undir fjögur augu, undir húsvegg á Laugavegi, ávítað mig fyrir það sem ég hef skrifað hér. Mér bregður alltaf þegar einhver slær mig á trýnið. Er ég kannski ekki grandvar? Réttlætið verndar hinn grandvara en ranglætið verður syndaranum að falli.

Afsakið, sagði ég í stuttu svarbréfi mínu í gær. Aldrei aftur. Á göngu minni hingað á vinnustofuna í morgun rifjaði ég upp ávítunarorðin, hristi höfuðið yfir sjálfum mér og skellti upp úr, ég skellihló einn á göngu eftir dimmri götu. Afsakið.

Þrennt nýtt gerðist í gær.
Í fyrsta lagi ákvað ég að hlusta á tónlist stórstjörnunnar Billie Eilish.
Í öðru lagi hóf ég lestur á smásögum eftir Raymond Carver. Nú getur maður reynt að gera sér grein fyrir orsakasamhenginu:
? ––>
––> Gyrðir Elísson ––>
––> Kjell Askildsen ––>
––> Anton Tsjekhov ––>
––> Raymond Carver ––>
––> ?
Í þriðja lagi hlustaði ég á útvarpsþætti Gunnars Þorra Péturssonar (sem mér þóttu ansi góðir) og útvarpspistil Auðar Jónsdóttur (rithöfundur) um framtíð barna (sennilega hefur Auði oft áður tekist betur upp).

ps. Við hittumst á bjórbar ég og vinur minn rithöfundurinn með brúnu augun og skáldinu var heitt í hamsi eins og svo oft áður. „Bókmenntirnar eru mesta afrek mannkyns en á nú í vök að verjast fyrir lúðaskap og hálfvitagangi. Fólk er búið að missa hæfileikann til að lesa af því það slefar í sífellu ofan í helvítis símann sinn, alla sínar vökustundir. Fólk er friðlaust, það hefur enga hugarró og með hverju klikki minnka möguleikar bókmenntanna til að lifa af.“
„Æ, rólegur nú,“ sagði ég, „Þetta er kannski ekki svona slæmt.“
„Jú, verra!“
Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni, hugsaði ég og fannst ég svakalega skarpur.
„Snæi, þú hlýtur að sjá að ég hef rétt fyrir mér,“ sagði hann í örvæntingu sinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.