Espergærde. Er þetta ekki draumur?!

Það er margt sem hefur þotið í gegnum hausinn á mér í morgun og nótt, engin ringulreið, bara margar – „áhugaverðar“ – hugsanir. En það var eitt sem skyggði á annað. Ég las að Sölvi Björn hefði unnið Hin íslensku bókmenntaverðlaun og ég veit hvað það er hrikalega gaman – fyrir hann og alla þá sem vinna slík verðlaun. Ég hef ekki lesið verðlaunabókina. Í desember ætlaði ég að kaupa hana sem e-bók en í þeirri útgáfu fæst bókin hans ekki – ekki man ég hvað verðlaunabókin heitir en því ræð ég snarlega bót á. Jú, Selta, heitir bókin og undirtitill er Apókrýfa úr ævi landlæknis. Ég hafði beðið vin minn um að kaupa bókina fyrir mig og senda mér, en hann gleymdi því í önnum sínum og mundi það ekki fyrr en hann var kominn þúsund kílómetra frá íslenskri bókabúð. Hann bauðst auðvitað til að snúa til baka og næla í bókina. Nei, ég næ mér í bókina næst þegar ég kem til Íslands. Sem sagt.

Og ég ætlaði að muna eftir að óska mínum gamla prófarkalesara innilega til hamingju! Innilega til hamingju, Sölvi Björn verðlaunahafi. Flott hjá þér!

Nú kemur það mikilvæga, það sem skyggir á allt annað í huga mér. Ég heyrði í viðtali við verðlaunahöfundinn að hann sagði frá því hvað hann hefði verið upplagður þegar hann skrifaði söguna, hann hafði skemmt sér svo vel og lifað í svo undursamlegri sameiningu með texta bókarinnar að hann gat varla sleppt bókinni inn í prentsmiðju. Hann vildi helst fá að halda áfram að lifa og hrærast meðal blaðsíðna þessarar bókar. Er þetta ekki draumur! (Hér ætti að koma spurningamerki en mér fannst upphrópunarmerkið eiga betur við.)

Nú les ég aðra bók HHV FRSHWN og einmitt þegar ég les skáldsöguna HHV FRSHWN, sem er dönsk og gerist að hluta til á Íslandi, fæ ég á tilfinninguna að höfundur hafi skemmt sér vel við að segja söguna, Hún (Hanne Viemose) er í algjöru stuði, leikur sér að lesanda sínum og gerir grín að sjálfri sér við að skrifa söguna (og lesandanum og öllu.) Ég fer sjálfur í stuð og langar einmitt að skrifa slíka bók þar sem allt dansar og sveiflast; allt er í swingi.

Bókin HHW FRSHWN er skrifuð í miklu stuði.

En um allt þetta hugsaði ég þegar ég haltraði af stað til vinnu í morgun. Já, ég haltraði eins og gamall skröggur, gamall fauskur, eftir að hafa spilað tenniskappleik í gærkvöldi. Líkami minn er eitt opið sár og ég get ekki hreyft augnlok án þess að finna fyrir nístingskvölum (þannig). En ég haltraði af stað og þrátt fyrir helti mína og líkamlega vansæld ákvað ég að taka lengstu mögulegu leið að vinnustofu minni; ég tók líka útúrdúra, fór krókaleiðir og hvar endar maður? Í eymd minni ákvað ég að hugga sjálfan mig með því að koma við hjá bakaranum og kaupa eina smáköku til að drekka með fyrsta kaffibollanum á vinnustofunni. (Um leið og ég hafði læst tönnunum í kökuna sá ég biturlega eftir þessara ákvörðun um að kaupa sætmeti, ákvörðun sem ég hafði tekið á augnabliki þar mér var ekki alveg sjálfrátt. Ég er ekkert fyrir sætmeti! Þvílíkt rugl.)

Svo sá ég að Bergrún Íris Sævarsdóttir hafi unnið barnabókaverðlaunin sem mig langaði svo að vinna. Ég óska henni líka til hamingju. Ekki heldur þessa verðlaunabók hef ég lesið, en ég las hina verðlaunabókina hennar Bergrúnar, Kennarinn sem hvarf, sem kom út í ár. Ég er ekki viss hvort maður læri hvernig eigi að skrifa verðlaunabók af lestri bóka Bergrúnar. Verðlaunanefndir breytast ár frá ári, bæði að mannvali og í fagurfræðilegri hugsun. Bækur sem þykja algjörlega verðlaunaverðar í ár þykja kannski dót og drasl að ári. Maður verður bara að vanda sig. En verðlaun, ummmm, ég er sólginn í verðlaun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.