Espergærde. Bók og markaðsvélar hennar.

Ég hef oft, og tilefnin eru mörg, velt fyrir mér markaðsáherslum bókaforlaga. Ekki bara íslenskra bókaforlaga heldur almennt og yfirleitt. Ég veit vel að það eru margar og ólíkar ástæður fyrir því að bókaforlag ákveður að veðja á eina bók en ekki aðra. Bækur sem ekki seljast, seljast ekki sama hvað maður gerir til að reyna að auglýsa, það er þekkt staðreynd. Aðrar bækur selja sig nánast sjálfar án þess að maður þurfi að leggja háar fjárhæðir í auglýsingar Og enn aðrar bækur, til dæmis bækur metsöluhöfunda, þurfa gífurlega dýrar markaðsherferðir til að viðhalda vinsældum ákveðins höfundar. Arnaldur og Yrsa seljast ár eftir ár í stóru upplagi og eru efst á metsölulistum ár eftir ár, en þrátt fyrir þessar sjálfgefnu vinsældir eyða forlögin stórum hluta af auglýsingapeningunum í akkúrat þessa höfunda. Það er ekki að ástæðulausu.

Það kemur fyrir að hægt er að kaupa söluvinsældir með brjálæðislegum sjónvarpsauglýsingaherferðum. Þá eru óþekktir höfundar dregnir fram, eða þekktir höfundar sem ekki hafa notið vinsælda, og þeir settir í „nýjar umbúðir“. Hét bókin ekki Skipið, glæpasaga Stefáns Mána, sem fyllti alla auglýsingatíma sjónvarpsins á tímabili og gerði Stefán Mána – fyrri bækur hans hafði hann selt í nokkur hundruð eintökum – að ástsælum glæpsagnahöfundi? Fram að því hafði hann kannski verið þekktastur fyrir ágæta lýsinu á sápukúlum sem mynduðust við uppþvott aðalsöguhetju einar bókar sinnar. Og hver man ekki eftir því þegar Thor Vilhjálmsson var gerður að hinum íslenska Umberto Eco og bók hans Grámosinn glóir að hinni íslensku Nafni rósarinnar. Það var snilldarleg herferð Björns Jónassonar hjá hinu fallna forlagi Svart á hvítu.

Ég fór að hugsa um þetta í morgun af tvennum ástæðum. Ég las grein um útgáfu á bókinni American Dirt sem fjallar um flótta mexíkóskrar móður með yngsta son sinn frá eiturlyfjahreiðri í Mexíkó yfir landamærin til Bandaríkjanna. Höfundurinn er Jeannine Cummins og fékk hún gífurlega háa fyrirframgreiðslu fyrir handritið, eða það sem kallast á tungumáli bandarískra útgefenda „high seven figures“. Fyrirframgreiðslan var sem sagt milli 1.000.000 dollara og 10.000.000 dollara. Þetta eru miklir peningar. (Ég get bætt því við til samanburðar að íslenskt forlag greiðir rúmlega 1.000 dollara í fyrirframgreiðslu fyrir íslenska barnabók).

Slíka bók, þá á ég við bók Jeannine en ekki barnabókina, gefur bókaforlag ekki þegjandi út. Ef útgáfufyrirtæki hefur eytt milljónum í fyrirframgreiðslu til höfundarins er nauðsynlegt að ræsa allar hugsanlegar markaðsvélar. Og það var auðvitað gert. Þegar bókin American Dirt kom loks út (markaðsvélarnar höfðu malað í rúmt ár áður en bókin var prentuð) var hún þegar ein af þeim bókum sem bandarískir lesendur biðu eftir í hvað mestri eftirvæntingu. Bókin kom út og þaut á hraða eldingar upp á topp New York Times metsölulistans, Oprah Winfrey valdi bókina sem bók janúarmánaðar (þessa mánaðar sem nú er að kveðja) í bókaklúbbinn sinn og markaðsvélin var í sjötta gír, dag og nótt.

En svo gerist það þegar bókagagnrýnendur fóru að lesa bókina og birta gagnrýni sína að margir voru allt annað en ánægðir með söguna. Var bókin af mörgum kölluð tilfinningaklám á lægsta stigi og einnig var höfundur harðlega gagnrýndur fyrir klisjulega umfjöllum á vandamálum mexíkóskra innflytjenda í Bandaríkjunum. Einnig þótti gagnrýnendum slæmt að höfundurinn, sem er hvít, ung kona, skuli fjalla um jafn viðkvæm mál og vanda mexíkóskra innflytjenda án þess að hafa hundsvit á málefninu.

Viðbrögðin í Bandaríkjunum hafa verið svo sterk að bóksalar og forlagið sjálft hafa aflýst upplestrarkvöldum höfundarins víða um Bandaríkin „af öryggisástæðum“ eins of forlagið segir í tilkynningu sinni.

Hin ástæða þessara hugsana um markaðsöflin er lestur minn á bók Rögnu Sigurðardóttur, smásagnasafninu Vetrargulrætur. Ég er bara kominn í gegnum hálfa bókina en mér þykir það sem ég hef lesið prýðilegt. Á meðan ég lá upp í sófa og las smásagnasafnið fór ég að hugsa um hvers vegna þessi bók, Vetrargulrætur, skyldi hafa fengið jafnlitla athygli og raun ber vitni. Og þegar ég hugsa mig um þá var verðlaunabók Sölva Björns, Selta heldur ekki drifin áfram af malandi markaðsvélum. Selta, sem valin var besta skáldsaga ársins, sigldi aldeilis hljóðlaust í gegnum jólabókaflóðið. Bókin lenti í 19. sæti yfir mest seldu íslensku skáldsögur ársins. Og það er alveg örugglega rétt mat hjá forleggjurum þessara bóka að stórar markaðsáætlanir og kraftmiklar markaðsvélar hefðu aldrei náð að gera þessar tvær fínu bækur að metsölubókum.

Angi af markaðsherferð fyrir American Dirt. Hér er mynd úr Twitter-herferð.

dagbók

Ein athugasemd við “Espergærde. Bók og markaðsvélar hennar.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.