Ég skrifa á hverjum degi á Kaktusinn. Það er regla hjá mér. Oftast skrifa ég eitthvað sem drífur á daga mína og venjulega fara dagbókarskrifin í loftið og út í heiminn án þess að einhver eða einhverjir bregðist við. Það gerist þó stundum og mér oftast til ánægju. Gærdagurinn var einn af þessum dögum þar sem margir virtust hafa áhuga á efninu markaðsvélar bókanna. Sumir höfðu sjálfir gefið út bækur og veltu fyrir sér hvort það hefði haft áhrif á sölu bóka þeirra hefði verið sett almennilegt eldsneyti á markaðsmótorinn. Aðrir veltu fyrir sér hvaða áhrif það mundi hafa á sölu metsölubókar væri hún auglýst jafnlítið og hver önnur bók í fagurbókmenntageiranum. Mundi sala á bókum Arnaldar, Dan Brown, Yrsu Sigurðardóttur hrapa ef ekki væri stutt dyggilega við bakið á bókunum þegar þær kæmu út? Og svo spurðu sumir sjálfa sig og Kaktusinn hvers vegna svo hart hefði verið brugðist við bókinni American Dirt? Var það bara vegna þess að ung, hvít kona leyfði sér að skrifa um ömurlegar aðstæður innflytjenda í Bandaríkjunum? Eða var það hrein öfund vegna óvæntrar og mikillar velgengni?
Í tilefni þeirra samtala sem ég átti við lesendur Kaktusins í gær fór ég að lesa meira um bókina American Dirt sem er orðin umtalaðasta bók ársins. Nú hafa meira en 120 rithöfundar skrifað undir bréf til Oprah Winfrey. Oprah er sjónvarpsstjarna (einskonar Kolbrún Bergþórsdóttir Bandaríkjanna) og sú manneskja sem hefur mest áhrifa á sölu bóka í heiminum. Bækur sem hún mælir með í sjónvarpsþætti sínum geta selst í milljónaupplagi. Nýjustu dæmi eru bók Daliu Owens Where the Crowdas Sing þar sem fullkomlega óþekktur höfundur seldi bók sína í milljónum eintaka eftir meðmæli Oprah.
Nú krefjast þessir rithöfundar í opnu bréfi að Oprah taki til baka meðmæli sín með bókinni. Þeir segja í bréfi sínu til sjónvarpsstjörnunnar að „sennilega hafi höfundur bókarinnar haft gott eitt í huga, en það leiðir ekki endilega til góðra bókmennta, og það hjálpar heldur ekki þegar skáldsögunni er hampað á gjörsamlega óviðeigandi hátt.“ Þar vísa höfundarnir, sem margir eiga ættir að rekja til innflytjenda til útgáfuhófs bókarinnar þar sem á borðum var blómaskreyting haldið saman af gaddavír, sem sagt sama gaddavír og flóttamennirnir mæta á flóttaleið sinni til Bandaríkjanna. Höfundunum fannst þessi notkun á gaddavír sérlega ósmekkleg.
Að öðru. Mikið rót er nú á hinum danska bókamarkaði. Ný forlög eru stofnuð með fjársterka einstaklinga eða fyrirtæki á bak við sig. Þessi nýju forlög hafa nú lokkað til sín marga þekkta höfunda sérstaklega frá Gyldendal og Rosinante (dótturforlag Gyldendal sem lagt var niður fyrr á árinu). Valdahlutföll á markaðinum eru mjög að breytast bæði í Danmörku og líka í Svíþjóð þar sem Storytell kaupir upp forlög til að fóðra „bók-streaming-þjónustu“ sína. Frá Íslandi berast ekki sögur af byltingu eða umróti en tíðindum þykir sæta að Halldór Guðmundsson, hinn margreyndi útgáfurefur, er fluttur til landsins eftir sigurför með norskar bókmenntir til Frankfurt am Main. Hingað, í mitt litla kot í útlöndum, berast þær óstaðfestu fréttir að Halldór muni brátt taka við stjórnarformennsku Forlagsins og ætli að taka virkari þátt í starfssemi útgáfufyrirtækisins, sem hefur barist við versnandi efnahag síðari ár. Ef þetta er rétt, sem sagt comeback úrgáfurefsins, eru þetta bæði góð tíðindi og mikil tíðindi.