Espergærde. Rán og óreiða

Ég hafði notað allan morguninn til að skrifa eitt af þessum löngu tölvupóstum sem stundum er nauðsynlegt að skrifa. Ég átti óuppgert erindi við félaga minn sem býr í útlöndum og það var margt sem ég þurfti að útskýra og fréttir langt aftur í tímann sem ég þurfti að gera grein fyrir. Slík skrif taka langan tíma. Ég hafði tekið mér hlé frá skrifunum til að fá mér morgunmat, ristað brauð og kaffi – og leit líka svolítið í dagblaðið – en hugurinn minn snerist um samningu tölvupóstsins. Á meðan allt þetta fór fram í höfðinu á mér og ég var í sakleysi mínu í miðjum morgunmat – óuppvaskaðir diskar í vaskinum því ég hafði ekki náð svo langt að taka til eftir morgunmatsundirbúninginn – stóðu allt í einu tveir ungir menn og ung kona og bönkuðu á eldhúsgluggann hjá mér. Gluggarnir eru stórir og ná frá jörðu og upp í loft, því blöstu þessir þremenningar við mér. Ég tók eftir að annar mannanna bar risastóra myndavél með hálfsmetra langri linsu. Hin tvö voru óróleg og áköf í fasi. Það fyrsta sem mér datt í hug voru að þarna stæðu blaðamenn.

Ég opnað dyrnar sem liggja frá eldhúsinu og út á verönd og spurði þetta ágæta fólk hvert erindi þeirra væri. Já, ég hafði rétt fyrir mér, þetta voru blaðamenn og engir venjulegir blaðamenn því þeir komu frá dönsku, gulu pressunni. Mér leist ekki vel á það. Þau kynntu sig kurteislega – ég fann samt hinn mikla innri óróa frá þeim – og spurðu hvort ég hefði tíma til að tala við þau.
„Um hvað?“ spurði ég.
„Það snýst um nágranna þinn,“ sögðu þau.
„Nágranna minn, hvað með hann?“
„Já, það var framið rán í gærkvöldi, honum var haldið föngnum, munum af heimilinu var stolið og bíllinn hans var eyðilagður.“
„Um hvaða nágranna eruð þið að tala?“
Þau tilgreindu hvaða nágranna væri um að ræða.
„Ég þekki hann ekki. Við heilsumst á morgnana. Ég þekki hann ekki.“
„Þú hefur ekki orðið var við undarlegar heimsóknir til hans?“
„Undarlegar heimsóknir? Hvað áttu við með því?“
„Nei, ránið í gær var skipulagt af svokallaðri escort-skvísu. Hann hafði pantað heimsókn hennar en hún sá að á heimilinu voru verðmæti og BMW bíllinn var girnilegur og maðurinn var drukkinn svo hún kallaði á vini sína sem sáu um að binda hann á meðan þau söfnuðu verðmætum í húsinu …“

Þetta fannst mér aldeilis hræðilegar fréttir en ég hafði ekkert við þetta blaðafólk að tala. En ég sá að blaðaljósmyndarinn tók mynd af mér í gegnum eldhúsgluggann þar sem ég reyndi að koma skikki á uppvaskið sem ég hafði vanrækt í morgun. Kannski verð ég á forsíðu gulu pressunnar.

ÓREIÐA HJÁ ÓSAMVINNUÞÝÐUM NÁGRANNA.
ÓHREINIR DISKAR VORU ENN Í VASKINUM FRÁ MORGUNMATNUM
.

´

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.