Espergærde. Einmana karlauli

Ég hugsa stundum um það hvað við Sus gerum þegar strákarnir eru orðnir svo stórir að þeir flytji að heiman eins og öll hin börnin mín. Það er ekki langt i það. Kannski bara fimm ár. Ekki viljum við Sus búa ein í allt of stóru húsi með tómum herbergjum þótt húsið sé engu líkt. Þetta er gott hús að búa í.

Ætli við seljum ekki húsið og flytjum úr bænum. Til Kaupmannahafnar þar sem tónlistin er. Ég veit ekki. Mér datt þetta bara í hug þegar ég las um Ingmar Bergmann sem íhugaði nokkrum dögum áður en hann dó að flytja frá húsinu sínu á eyjunni til Stokkhólms.

Í morgun birti EkstraBladet myndir af félaga mínum og nágranna; manninum sem ég kalla „maðurinn með hundinn“ hér á Kaktus. Þótt ég hefði sagt blaðamönnum að þekkti ekkert til mannsins var það bara vegna þess að ég hafði ekkert við blaðamenn að segja um ástand félaga míns. Hann er víst vandræðum með sjálfan sig, en það vissi ég ekki. Sennilega vissu allir aðrir í götunni það. Hann er að sögn farinn að drekka óhófleg mikið eftir að hann missti vinnuna. Situr einn heima hjá sér og drekkur sig fullan.

Ég hitti hann í morgun. Ég bankaði upp á hjá honum; ég gerði það þótt mér þætti það óþægilegt. Ég hef aldrei fyrr bankað upp á hjá honum en ég vildi bara heilsa upp á hann því þetta er allt svo neyðarlegt með þessa opinberu niðurlæginu í gulu pressunni. „Rændur af fylgdardömu,“ er skrifað stórum stöfum á forsíðuna og mynd af félaga mínum þar sem hann stendur ringlaður – við hlið tveggja lögreglumanna – fyrir utan hús sitt, illa rakaður og úfinn.

En hann leit betur út í morgun, nýbaðaður og nýrakaður. Áfengislyktin af honum var að vísu stæk en hann var allsgáður. „Ég er bara einmanna karlauli,“ sagði hann kaldhæðnislega þegar ég spurði hvernig hann hefði það. Hann var greinilega niðurbeygður þótt hann reyndi að bera sig vel.

Hvað gerir maður til að lyfta manni sem er kominn í þessa vondu stöðu? Ég þekki hann ekki svo vel að ég viti hvað ég eigi að gera.

ps. Bókmenntamoli. Ég kom til Íslands í nóvember á síðasta ári til að vera viðstaddur hina svokölluðu íslensku bókamessu í Hörpunni. Forlaginu, eða markaðsdeild Forlagsins, þótt rétt að hinn nýbakaði barnabókahöfundur, það er ég, kæmi fljúgandi frá Danmörku til að taka þátt í messunni. Þar sem ég vissi ekkert um bókmessuna í Hörpu spurði ég markaðsdeildina hvort það væri gott að ég kæmi eða hvort ég gæti alveg eins sleppt því að mæta. Það var mikilvægt að ég léti sjá mig sagði markaðsdeildin og ég mætti.

Að mörgu leyti sá ég þó eftir að hafa mætt. Þetta set-up hentaði mér ekki. Mér fannst ég ekki gera neitt af viti til að kynna bókina sem ég skrifaði annað en smáspjall við vinsamlega gesti sem véku sér að mér. Sem bókarhöfundur fékk ég sem sagt ekkert út úr veru minni á bókmessunni en það gladdi mig auðvitað að hitta gamla félaga og gamla samverkamenn úr bókabransanum. Einn af þeim var Jakob Ásgeirsson, útgefandi hjá Uglu. Ég hef alltaf dáð Jakob fyrir hreinlyndi hans, tilgerðarleysi og hugrekki sem ekki öllum er gefið. Þessa eiginleika hans sá ég strax þegar við vorum samferða í gegnum menntaskólann.

Ég segi frá þessu hér vegna þess að einmitt þegar ég hitti Jakob í Hörpu vildi svo skemmtilega til að hann hafði nýlega gefið út bókina Endurfundir á Brightshead eftir Evelyn Waugh. Bókina vildi hann endilega gefa mér. Ég tók glaður við bókinni og byrjaði að lesa hana í Hvalfirði síðustu daga þessarar bókamessuferðar. Ég náði ekki að klára bókina en væntanlega geri ég það þegar ég kem í febrúar. En það sem ég vildi sagt hafa. Þær fréttir berast frá útlöndum að barnabarn Evelyn Waugh sem heitir Daisy Waugh sé búin að skrifa glæpasögu þar sem hún notar sögusvið bókar afa síns Endurfundir á Brightshead.

Bókin heitir In the Crypt with a Candlestick, og verður gefin út í Englandi þann 20. febrúar. Þetta er víst gamansaga með morðgátu. Í bókinni er gert grín að yfirstéttinni sem núorðið er „eina fólkið sem má gera grín að,“ segir Daisy.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.