Það hefur sótt á mig þessi mikli efi, þessar nagandi áhyggjur yfir að það sem ég hef notað síðustu mánuði til að skrifa sé ekki nógu gott. Ég er á lokametrunum með bók og hafði vonað að mér tækist að skrifa mig í gegnum söguna áður en ég færi til Íslands á föstudag.
Í gær sat ég yfir handritinu og skrifað niður helstu atriði hvers kafla og raðaði á tímalínu. Mig vantar yfirlit. Mig sárvantar yfirlit. Í morgun ákvað ég að búa til yfirlit á veggnum á vinnustofunni með „post it“ miðum eins og maður sér stundum helstu stjörnur bókmenntanna gera (Rowling). Það er allt á hvínandi ferð í hausnum á mér. Mig vantar lokasenu og mig vantar aðdraganda að lokasenu. Mig vantar að brúa lítið bil í tímanum rétt á undan lokasenunni. Þetta er það sem ég er að berjast við og þetta er það sem snýst í huganum á mér eins og brjáluð fluga í glasi.
Sus er að þýða bókina sem ég skrifaði i fyrra (Rannsóknina) yfir á dönsku. Danska forlagið var nógu snjallt að hafa samband við Sus og biðja hana að þýða bókina. Hún á að skila fyrsta mars en er nánast búin. En það eru þessi stjörnumerktu staðir í þýðingunni sem hún vill ræða við bókarhöfund. Það gerðum við í morgun þrátt fyrir hinn ægilega óróa sem herjar á hug höfundarins. „Den svære toer,“ kallar Danir bók tvö hjá rithöfundi sem hefur tekist að komast klakklaust frá útgáfu bókar númer eitt. Mér var bent á að á íslensku heitir þetta fyrirbæri: frumraunamæði. Og það er einmitt það sem nagar heilann á mér. Verður bók tvö betri en bók eitt eða fellur hún gersamlega? Þetta angrar höfundinn. En ég gaf mér samt tíma til að spjalla rólega við þýðandann um stjörnumerktu setningarnar. Tíminn leið …
Þegar ég kom út í morguninn var klukkan þó ekki nema rétt yfir átta. Himinn var heiður og sólin var að koma upp í austri, yfir Eyrarsundinu. Það var frost í lofti. Ég ákvað, þrátt fyrir allan óróan í huganum að ganga löngu leiðina á vinnustofuna. Allt var baðað svo fallegri birtu að ég gat ekki leyft mér að loka mig bara inni í minni dimmu skonsu á meðan heimurinn skartaði sínu fegursta.
Ég gekk því niður á Strandvejen. Út í fjarskanum, langt út við sjónarrönd, kom ég auga á stórt skemmtiferðarskip sigla hægt í suðurátt. Sjórinn var logandi gulur og spegilslettur. Allir heimsins morgnar, hugaði ég. Ég virti fyrir mér fólkið sem sprangaði nakið úti á baðbrúnni, klifraði niður tröppurnar og lét sig líða niður í ískalt hafið. Kalt sjóbað.
Þrátt fyrir fegurð morgunsins, kyrrðina og alla upphöfnu birtuna sótti að mér æ meiri óróleiki. Í höfðinu á mér keyrði samtal milli tveggja höfuðpersóna bókarinnar minnar sem mér þótti gott. Ég var hræddur um að ég mundi gleyma því ef ég flýtti mér ekki að skrifa það niður á vinnustofunni. Hvað eftir annað var freistandi að stytta sér leið og koma sér að verki. Á vinstri hönd voru tröppur og þröngnir stígar og ef ég veldi að ganga þá, í stað þess að arka áfram meðfram sjónum, yrði ég fljótari að setjast við tölvuna og því minni líkur á að ég gleymdi því sem ég hafði í höfðinu. En ég var staðfastur og lét ekki freistast af því að stytta mér leið.
Að öðru (ég er búinn að skrifa senuna með þessu stórkostlega samtali, yo!). Ég kem til Íslands á föstudag – þetta er viðvörun til þeirra sem þurfa á viðvörun að halda – og ég sé að nú er bókaútsölu tími. Allt er á útsölu og ég hlakka til að festa klærnar í bókina hans Sölva Björns. Ég hefði keypt hana hvort sem hún væri á útsölu eða ekki; þessa bók hef ég áhuga á að lesa. En ég man bara ekki eftir öðru sem ég hef áhuga á á íslenskum bókamarkaði. Engar nýjar bækur koma út á þessum tíma, enda bókaútsala.
Ég hef kannski gleymt að minnast á bók Rögnu Sigurðardóttur, Vetrargulrætur sem ég kláraði um helgina. Þetta er mjög fín bók og ég er eiginlega hissa á að hún hafi ekki fengið tilnefningu til hinna íslensku bókmenntaverðlauna. Ég hef lesið tilnefningarbækurnar og ég hefði hiklaust skipt þessari bók inn fyrir að minnsta kosti eina af þeim sem lenti á tilnefningarlistanum.