Hvalfjörður. Lærðir iðnaðarmenn

Vaknaður í Hvalfirði og það var aldeilis gott. Kolniðamyrkur og hvínandi rok; er þetta ekki einmitt Ísland. Þetta er að minnsta kosti ekki Danmörk. Húsið hér í Hvalfirðinum tók vel á móti okkur þegar við komum í gærkvöldi; það er bara gott andrúmsloft í þessu húsi. Þvílík heppni.

Ég hef ekki verið hér síðan í byrjun desember en margri aðrir hafa búið í húsinu í millitíðinni. Sus var hér með stórum hópi vina okkar frá Danmörku um áramótin, hér hafa rithöfundar verið við ritstörf og verkamenn baksað við frágang. Smám saman kemur í ljós að iðnaðarmennirnir sem hafa unnið við byggingu hússins eru töluverðir bókmenntaáhugamenn.

Ég hef nokkrum sinnum hitt rafvirkjann sem hefur lagt raflagnir hér. Hann var gífurlega áhugasamur þegar hann frétti að ég hafði skrifað bók og minntist æ ofan í æ á hvað það væri nú flott hjá mér að byrja bara allt í einu á að skrifa bækur. Í ljós kom að hann var mikill lestrarhestur og vildi endilega lána mér uppáhaldsbækur sínar. Þegar ég kom í gær sá ég að bæst hafði í bókasafn heimilisins nokkrar bækur sem rafvirkinn hafði laumað í hilluna til að gleðja mig.

Fyrr í vetur var Jón Kalman staddur hér við ritstörf og tók á móti pípulagningarmanni sem þurfti að lagfæra eitthvað og þá kom í ljós að maðurinn kunni bækur Kalmans betur en sjálfur höfundurinn. Hann hafði lesið gjörvallt ritsafn skáldsins og gat vitnað í senur sem sjálft skáldið var löngu búinn að gleyma.

Einn af jarðvinnumönnunum sagði mér, um leið og hann falaðist eftir áritun í bókina sem ég skrifaði(!), að hann læsi í að minnsta kosti hálftíma á hverju kvöldi fyrir börnin sín áður en þau færu að sofa. Enginn dagur liði án bóka í lífi hans, eins og hann sagði.

Ég veit ekki hver skýringin á þessari bókelsku iðnaðarmanna minna, ég veit ekki hvort þetta sé tilviljun eða svo sé almennt á meðal iðnaðarmanna, eða hvort þetta séu iðnaðarmenn landsbyggðarinnar sem eru svona bókhneigðir. Mér finnst þetta að minnsta kosti skemmtilegt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.