Hvalfjörður. Með titrandi yfirskegg

Ég átti eitt brýnt erindi til Reykjavíkur í dag. En það var ekki einungis til að sinna mínu mikilvæga erindi að ég brunaði til höfuðborgarinnar. Ég á líka skyldum að gegna gagnvart góðum gestum mínum frá Danmörku sem gista hérna hjá mér í Hvalfirðinum. Það þarf að sýna þeim land og þjóð og ekki síst sjálfa Reykjavík.

Við tókum Lars og Piu því með okkur í Vesturbæjarlaug, niður á höfn, inn í Hörpu, Hallgrímskirkju, Skólavörðustíg, KEX og tíu-ellefu. En mitt brýna erindi var að ná í verðlaunabókina, Seltu eftir Sölva Björn. Ég hafði séð að bókin er komin út í kilju og það hentar mér ágætlega þegar ég get ekki fengið hana sem e-bók.

Bókin fékkst í verslun Eymundsson á Skólavörðustíg og ég var fljótur að finna skáldsöguna sem stóð í veglegri stæðu í miðri búð. Ég sá út undan mér að ungi drengurinn sem stóð við afgreidslukassann gaf mér auga þegar ég strunsaði í gegnum búðina (ég var að flýta mér því hinir dönsku gestir biðu fyrir utan). Seltu tók ég með mér upp til unga afgreiðsludrengsins til að ganga frá viðskiptunum með hraði.
„Þú ætlar að taka þessa?“ sagði ungi maðurinn og ég sá að yfirskeggið á honum – sem var brúskur úr heldur stífum hárum, svo yfirskeggið minnti nokkuð á bursta – titraði eins og fínstilltur umhverfisskynjari.
„Já,“ sagði ég. „Hefur þú sjálfur lesið bókina?“
„Það hef ég gert,“ sagði afgreiðslumaðurinn og skeggið tók að titran af meiri ákafa. „Ég var rosalega ánægður með bókina sem kom á undan þessari Gestakomur í Sauðlauksdal, eftir Sölva.“
„Jahá,“ sagði ég áhugasamur.
„Já, mér fannst sú bók alveg frábær. Þessi hér (hann benti á Seltu) er líka fín en framan af er hún frekar erfið. Minnir svolítið á stílæfingu. Maður þarf að venjast henni.“
„Áttu Gestakomur í Sauðlauksdal?“
„Nei, hún er gersamlega ófáanleg. Uppseld, algerlega uppseld.“

Ég held að ég hafi aldrei heyrt um bók sem var jafn uppseld og bókin um Gestakomur í Sauðlauksdal svo ég sá að það þýddi ekkert fyrir mig að kaupa hana. Ég lét því nægja að taka bókina hans Sölva Björns, Selta.

„Ég veiti þér höfundarafslátt,“ tilkynnti drengurinn og aftur fór yfirskeggið að titra, nú allískyggilega.
Ég var undrandi og vissi ekki alveg hvað hann átti við og því sagði ég eins og var að ég var ekki höfundurinn. Höfundinn kannaðist ég hins vegar vel við eftir samvinnu okkar við bókagerð fyrir mörgum árum.
„Nei, ég átti ekki við að þú værir höfundurinn, heldur að þú værir höfundur. Þess vegna gef ég þér afslátt á bókinni.“
„Nú, já. Ég veit ekki alveg hvort ég geti með réttu kallað mig höfund.“
„Allir í rithöfundasambandinu fá höfundaafslátt.“
„Ég er ekki í rithöfundasambandinu.“
„Það er alveg sama, ég gef þér höfundaafslátt. Það áttu alveg skilið.“

Ekki vissi ég hvernig ég hafði áunnið mér þennan rétt og hvað ég hafði gert til að öðlast þennan sess hjá unga drengnum með yfirskeggið en hann vildi augljósleg gleðja mig og ég varð harla glaður. Ég skynjaði hvað hann lagði sig fram um að gera mér til hæfis og ég gat ekki annað en verið þakklátur fyrir það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.