Hvalfjörður. Viðmið verðlaunanefnda

Allt er gott. Dagarnir líða í lestri og göngutúrum. Það hentar mér ágætlega. Ég kláraði í gær barnabók sem heitir Langelstur að eilífu eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur, en bókin vann Hin íslensku bókmenntaverðlaun í flokki barna- og unglingabóka. Þessa bók valdi ég en ég er að reyna að læra af íslenskum barnabókahöfundum sem þykja fremstir í sínum flokki. Ég las líka aðra verðlaunabók, Seltu eftir Sölva Björn.

Þetta eru aldeilis ólíkar bækur og maður getur ekki annað velt fyrir sér hvaða mælikvarða dómnefndir Hinna íslensku bókmenntaverðlauna hafa til viðmiðunar þegar valdar eru verðlaunabækur. Ef ég á að reyna að geta mér til hvers vegna bók Sölva Björns, Selta, hafi verið valin umfram þær fjórar aðrar bækur sem tilnefndar voru held ég að dómnefndin hafi þótt meðferð Sölva á tungumálinu svo fín að það væri ástæða til að verðlauna hann. Hins vegar held ég ekki að það hafi verið sá þáttur sem gerði bók Bergrúnar að verðlaunabók. Ætli nefndinni hafi ekki fyrst og fremst þótt umfjöllunarefni bókarinnar verðlaunavert; hringrás lífsins, dauði og fæðing og viðbrögð barns við þessum stóru viðburðum lífsins.

Í gær barst mér bréf með ábendingu um grein í New York Times. Það var umfjöllun Karl Ove Knausgaard um þýska listamanninn Anselm Kiefer. Knausgaard fór að hitta listmálarann í flugskýli í Bandaríkjunum og fylgdi honum svo til Svartaskógar í Þýskalandi þar sem listamaðurinn er fæddur og ólst upp. Blaðagreinin er gífurlega löng, sjaldan að dagblað gefi slíkt pláss, og á margan hátt skemmtileg. Kiefer er á stóru egóflippi; einkaþotur, stórir vindlar og hann man ekki stundina lengur hvað Karl Ove heitir eða við hvað hann fæst. Við lesturinn vaknaði aftur upp hjá mér gamall draumur að fylgja Pep Guardiola nokkrar vikur og skrifa bók um samvistir okkar. Ég hefði gaman af því en ég er ekki viss um að Pep hefði af því jafnmikla skemmtun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.