Hvalförður. Úfinn og önugur

Það hvín í öllu hér og ég er ögn órólegur yfir húsinu, nýja húsinu, hvort það haldi í þessum ógurlega vindi. Það brakar, hriktir og marrar og ég bíð milli vonar og ótta. Vindstyrkurinn í firðinum er samkvæmt mælum Vegagerðarinnar 45 m/sek í verstu hviðunum. Sjálfur Hvalfjörðurinn hér fyrir utan gluggann hjá mér er úfinn og önugur. Það ýrir saltvatni úr loftinu og nú fór rafmagnið.

Dönsku gestir mínir sem eiga að fljúga í dag til Danmerkur lögðu af stað til Keflavíkur í gær, á undan veðrinu, til þess að eiga möguleika á að ná fluginu í dag. Héðan eru allir vegir til Keflavíkur nú lokaðir og því hefðu þau aldrei getað verið tímanlega ef þau hefðu gist hér.

Í gær byrjaði ég á nýrri bók sem fjallar um HC Andersen, danska ævintýraskáldið, en hann er í sögunni ákærður fyrir morð og ákveður að rannsaka málið sjálfur til að sanna sakleysis sitt. Þetta er glæpasaga og ég get ekki betur séð en að ég eigi eftir að glepjast af þessari frásögn, Mordet på en havefrue

ps. Höfundur bókarinnar gaf mér bókina þegar við hittumst í Kaupmannahöfn í október. Bókina fékk ég í mjög fallegri hátíðarútgáfu; í plussklæddri öskju og með fallegri kveðju fá skáldinu. En á leið minni heim frá Kaupmannahöfn þetta kvöld – eftir að hafa borðað með vini mínum skáldinu – lagði ég pokann með bókinni frá mér á bekk á lestarstöðinni við Nørreport. Lestin til Nivå rann inn á brautarpallinn og í þann mund sem átti að loka lestardyrunum er hrópað að ef við, sem sátum á brautarpallinum, vildum komast með Kystbanen skyldum við taka þessa lest til Østerport því Kystbanen mundi ekki stoppa í Nørreport. Ég varð því að hoppa upp í lestina en gleymdi að taka bókarpokann með mér. Ég varð gífurlega leiður yfir þessu um leið og ég uppgötvaði mistök mín og hef ekki fengið mig til að segja vini mínum skáldinu frá þessum glöpum. En nú er ég með bókina (annað eintak) hér hjá mér og get að minnsta kosti lesið hana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.