Nú er ég orðinn eini ábúandinn hér í sumarhöllinni í Hvalfirðinum. Sus og Davíð flugu heim í gær og ég verð hér næstu sex daga og ætla að reyna að halda áfram við handritaskrif. Kannski næ ég að klára? Þá þarf eiginlega allt að ganga upp.
Eftir að ég hafði keyrt Sus og Davíð til Keflavíkur sinnti ég smáerindum í Reykjavík og kom meðal annars við á Kaffi Vest til að fá mér einn kaffibolla. Þar inni var ekki sérlega margt um manninn en ég sá að Magga Örnólfs og og Dóra Geirharðsdóttir sátu að spjalli. Mér fannst ég ekki geta annað en að heilsa upp þær dömur. Ég leigði íbúð af Dóru eitt sumar þegar ég var á hrakhólum. Það var góð íbúð á Bergstaðarstræti og þar fór vel um mig. Möggu Örnólfs kynntist ég sennilega þegar Smekkleysa og Bjartur leigðu saman á Ægisgötu og Bræðraborgarstígnum. Mér hefur alltaf þótt Magga sjarmerandi kona. Stutt spjallið sem ég átti við þessar fínu konur þótti mér skemmtilegt.
Á kaffihúsinu sat líka Sjón, skáldið. Hann var upptekinn í spjalli við ungan mann sem ég þekkti ekki. Ég heilsaði skáldinuog hann heilsaði mér; við heilsuðumst. Einu sinni gaf ég bækur Sjóns út, bæði á Íslandi og í Danmörku. Ég held að það hafi verið ágætlega vel heppnaðar útgáfur af skáldskap hans.
Í gær komu svo Nói og fjölskylda og Sölvi og Ingibjörg í mat og gistu.
Nú er sunnudagsmorgunn og ég er einn kominn á fætur. Hér er kyrrð og yfir Botnssúlunum er þessi fallega birta. Ekki fæ ég nóg af henni.