Hvalfjörður. Viðtal við sálfræðing.

Fyrsti vinnudagur að baki í Hvalfirði og afköstin eins og best verður á kosið. Að vísu var ég svo ákafur og það gekk svo mikið á í hausnum á mér að ég svaf hörmulega í nótt því hugsanamuldrið hélt áfram þótt ég svæfi. Á endanum fannst mér þetta svo óþolandi að ég settist upp og fór að lesa þótt klukkan væri ekki einu sinni orðin fjögur. Svo las ég nokkrar smásögur eftir Murakami, lagðist aftur um klukkan sex og hugsaði eitthvað fallegt og sofnaði og svaf til að verða átta. Nú er ég klár í slaginn.

Svo gerðust þau tíðindi í gærkvöldi að ég fékk tölvupóst frá rúmlega áttræðum tilvistarsálfræðingi. Fyrir nokkrum mánuðum las ég langt viðtal við sálfræðinginn í Politiken, um starf hans og þá tegund sálfræði sem hann stundar. Mér þótti viðtalið og sýn hans á líf manna svo áhugavert að ég ákvað að hafa samband við hann. Ég fékk þau svör frá honum að hann væri bókaður nokkur ár fram í tímann (hann er víst nokkuð þekktur í Danmörku þótt ég hefði aldrei heyrt á hann minnst). Hann vísaði mér þó ekki frá heldur sagðist vilja tala við mig, þótt það væri ekki nema einu sinni, ef það losnaði tími hjá honum. Í gær, nærri því hálfu ári eftir að ég hafði samband við sálfræðinginn, kom svo þessi tölvupóstur að ég væri velkominn til hans þann 19. mars klukkan 12:30. Ég hlakka til að eiga í vændum samtal við þennan mikla sérfræðing í tilvist mannanna.

Já, tilvist mannanna. Þetta minnir mig á viðtal sem ég las í gærkvöldi, rétt fyrir svefninn. Enski rithöfundurinn Marian Keys var í viðtali við ensku pressuna í tilefni af útgáfu nýrrar bókar. Hún er óánægð. Henni finnst rithöfundar af kvenkyni almennt vera vanmetnir. Hún sagðist hafa meðvitað valið að skrifa um konur sem eiga erfitt eða bágt og einmitt þetta val hennar geri það að verkum að bækur hennar séu ekki teknar alvarlega, þær eru kallaðar chick lit (gellubókmenntir), útgefendur senda bækur hennar út í heiminn með kápumynd af proseccoflösku og ljósrauðum skóm. „Ef maður talar af yfirlæti um það sem fólk velur að lesa, gerir lítið úr bókmenntasmekk þeirra, skerðir maður líka sjálfstraust lesandans á öðrum sviðum. Þetta er ekki bara bókmenntasnobb heldur líka tilraun til að fjarlæga feminisma úr stjórnmálum. En ég er orðin svo þreytt á því að litið sé á bókmenntir skrifaðar af konum sem annars flokks bókmenntir. Ef karlmaður skrifar um tilfinningar þá fjallar hann um tilvist og lífskjör mannanna, en ef kona skrifar um tilfinningar þá er það léttvæg sápuópera. En ég get upplýst það hér að ég les aldrei bækur skrifaðar af körlum. Sjóndeildarhringur þeirra er svo þröngur og reynsla þeirra er af svo skornum skammti.“ Já. Menn geta verið sammála eða ósammála.

Þær fréttir berast frá Svíþjóð að bóksala í landinu hafi aukist um 1,1% árið 2019. Í Svíþjóð hefur bókabransanum tekist að þróa mjög góðan aðgang að sölutölum aðila bókamarkaðarins og líka er mikil hefð fyrir því að breyta þessum gögnum í tölfræði sem gefin er út af félagi sænskra bókaútgefenda. Mest var söluaukningin í skáldsögum (9,6%), glæpasögum (4,4%) og þýddum bókmenntum (6,5%) Sala á barnabókum og fagbókum dróst hins vegar saman. Á Íslandi er því miður ekki til nein almennileg gögn um bóksölu þaðan sem hægt væri að vinna gagnlega tölfræði. Því miður.

ps. Ég ákvað að kaupa mér hangikjötsálegg í bæjarferð minni á laugardag og nú hef ég borðað hangikjöt ofan á ristaða brauðið mitt í morgunmat. Mér finnst það ekki alveg henta mér að setja hangikjöt ofan í mig svo snemma morguns en mér finnst ég verða að reyna að gera eitthvað alíslenskt (eins og að borða hangikjöt) þegar ég er hérna á landinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.