Hvalfjörður: Jón Karl, Ragnar Helgi og Q. Tarantino

Í gær vann ég af kappi, sat óslitið við tölvuna frá klukkan átta og fram á kvöld. Að vísu með þeirri undantekningu að ég tók mér hádegishlé, klæddist gönguskóm og rölti niður að ruslagáminum sem er hér niður við veg og eins ákvað ég að útbúa mér hádegismat í hádegishléinu. Ég áttaði mig á að ísskápurinn var nærri tómur en ég hugsaði ekki svo mikið út í það því ég átti von á kvöldgestum úr höfuðborginni sem ætluðu að koma með kvöldmat. Ég fann því hálfan blómkálshaus sem ég steikti í því smjöri sem ég átti eftir, og ég fann tvö egg sem ég spældi.

Eins og oft áður í mína stutta og nýstofnaða lífi sem bókarhöfundar leggst með jöfnu millibili á mig nokkur efi; hvort það sé viturlegt að ég verji tíma mínum í þessa erfiðisvinnu að skrifa bækur. Á mig sækir nefnilega sá vondi ótti að bókin sem ég vinn að verði ekki nógu góð og að því sé þetta sóun á þeim stutta tíma sem mér er úthlutað hér á jörðu. Í nótt vaknaði ég klukkan fjögur og ég fann að efinn lagðist á mig af nokkrum þunga og þar að auki sveimaði hugmynd í kollinum á mér sem ég taldi að gæti komið söguskrifunum að gagni, kannski lyft frásögninni töluvert. En auðvitað var ég hræddur um að týna þessari fínu hugmynd inn í hyldýpi svefnsins og finna hana ekki aftur ef ég sofnaði áður en ég hefði skrifaði hugdettuna niður. Þessi vangaveltur mölluðu í hausnum á mér í hálfsvefni því ég varð með jöfnu millibili að rifja upp hugmyndina sem ég mátti ekki gleyma. Á endanum fór ég fætur um miðja nótt til að skrifa. Já, þetta er erfiðisvinna!

Ég minntist á að ég hefði átt vona á gestum um kvöldmatarleytið í gær. Jón Karl og Ragnar Helgi höfðu boðað komu sína hingað til mín í sveitina. Ég ákvað því að keppast við ritstörfin fram að komu þeirra. Ég hafði svo sem tekið eftir því að úti blés dálítið hressilega og töluvert snjófjúk var hér í sveitinni. En þegar ég áttaði mig allt í einu að klukkan var að verða átta um kvöld runnu á mig tvær grímur. Hvaða dagur er í dag, hugsaði hinn vankaði bókarhöfundur. Er ekki örugglega miðvikudagur? Eða er þriðjudagur? Ég leit á símann minn og það var ekki um að villast, klukkan var að verða átta og það var miðvikudagur. Ég fór að hafa áhyggjur af piltunum, kannski hafði vindurinn á Kjalarnesi blásið þá út af veginum. En mitt í þessum vangaveltum mínum hringdi síminn (satt að segja í annað skipti þennan dag) og á línunni var Jón Karl sem sagði farir þeirra félaga ekki sléttar, þeir höfðu þurft að bjarga þýskum ferðamönnum úr lífsháska og ákveðið að fylgja þeim til Mosfellsbæjar og nú væri Kjalarnesið orðið svo víðsjárvert fyrir bílinn hans Jóns Karls, sem ekki væri búinn nagladekkjum, að þeir treystu sér ekki að koma.

Ég viðurkenni það hér og nú í morgunþögninni við eldhúsborð í sumarhúsi í Hvalfirði að vonbrigði mín vegna þessarar fréttar voru nokkur. Tilhlökkunin að hitta þessa afburðarpilta hafði verið mikil og hafði stigmagnast eftir því sem leið á daginn. Þar að auki fann ég að ég var svangur og bæði síðustu eggin og allt blómkálið var notað í hádegismat. Í vanmætti mínum ákvað því að setjast niður og horfa á kvikmynd. Ekki fleiri orð í gegnum hausinn á mér í dag, takk, hugsaði ég. Kvikmyndin sem ég valdi að sjá var bíóverk Tarantinos; Once Upon a Time in Hollywood. Ég hafði heyrt að myndin ætti að vera góð. Nú skyldi Tarantino annast hina andlegu upplyftingu og skemmtun sem Jón Karl og Ragnar Helgi hefðu annars veitt mér þetta kvöld hefði Kjalarnesið verið þeim fært. Það geta verið tvær ástæður fyrir því að mér þótti þessi mynd alveg hörmulega léleg: 1) Myndin er frá hendi höfundarins hörmulega léleg, þunnt handrit og óáhugaverður söguþráður eða 2) Myndin er góð en áhorfandinn (ég) skilur ekki snilldina. Hvort sem maður velur ástæðu 1) eða ástæðu númer 2) skemmti þessi kvikmynd mér ekki. Því miður.

En nú er sem sagt kominn nýr dagur og enn er snjófjúk í Hvalfirði. Enn er ég sestur við langa borðið og skrifa á tölvuna mína (MacBook, yo!) enn er ísskápurinn minn tómur og ætli ég velti ekki vöngum fram á kvöld hvort nauðsynleg sé að halda í innkaupaleiðangur til Akraness.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.