Síðasti vinnudagur á Íslandi er runninn upp og hin stóra spurning hvort mér takist að komast á enda handritsins áður en ég hoppa upp í flugvél Icelandair til Kaupmannahafnar á morgun. Æsispennandi yo!
Í gær átti ég erindi til Akraness. Ísskápurinn var orðin galtómur; eggin búin, blómkálið búið og á botni ísskápsins lúrði ein Coca Cola light taste flaska frá því að gestir voru hér í húsinu um jólin. Ég velti mjög fyrir mér hvort ég kæmist af fram á laugardag með þessa einu Coca Cola light taste flösku og allt það kaffi sem til er hér í húsinu. Ég er að eðlisfari bjartsýnn og langt fram eftir degi í gær trúði ég að þetta svelti-mission gæti alveg heppnast, ég þyrfti ekkert að borða ég gæti bara notað tímann sem annars hefði farið í Akranesferð til að mjaka mér áfram með verkefni mitt.
Þegar komið var fram á síðdegi hafði bjartsýni mín dalað nokkuð og muldrið í hausnum á mér var farið að trufla og svengdin að naga.
Af hverju að pína sig í svelti, hugsaði ég.
Mér þykir gott að borða, hugsaði ég. Nei, slappaðu af, þú getur alveg sleppt því.
Tíminn leið.
Þú verður bara slappur og ringlaður ef þú borðar ekki, hugsaði ég.
Ferðin til Akraness þarf ekki að taka nema klukkutíma í allt, hugsaði ég.
Tíminn leið.
OK þá, ég næ í mat.
Loks þegar myrkrið hafði lagst yfir Hvalfjörðinn brunaði ég af stað og nú er meira en ein Coca Cola light taste flaska í ísskápnum.
Ég hef af og til verið að máta titla á þessa nýju bók sem ég er að skrifa en ég hef enn ekki rambað á neitt bitastætt. Titillinn á fyrstu bókinni Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins var mjög nákvæmur titill og lýsti vel um hvað saga bókarinnar fjallaði. En mörgum þótti titillinn óþjáll og áttu erfitt með að muna hann. Það er líklega rétt að titillinn var ekki sérlega söluvænn. Ég tók hins vegar eftir því í gær þegar ég fékk tölvubréf um heimsins væntanlegar bækur að nýjasta æðið í bókatitlum er: Book of …. Til dæmis eru væntanlegar bækurnar Book of Longings, Book of Lost Friends og Book of the Joy of Working … Á íslenskum barnabókamarkaði hefur verið hefð fyrir því að nefna bækurnar eftir höfuðpersónum bókanna: Fíasól og… Randalín og Mundi … Tinni og … Ástríkur í … Viggó mættur til leiks … Milla og Guðjón G. Georgsson … hmmm.