Þótt ég eigi að fljúga yfir hafið í flugvél í dag svaf ég eins og engill. Venjulega þegar ég á ferð fyrir höndum er órói í mér, ég er hræddur um að sofa of lengi. En ég vaknaði bara úthvíldur og fagur klukkan hálf sjö og tók mér góðan tíma í að lesa viðtal við Sally Rooney. Við Sally störfum í sömu atvinnugrein; að skrifa bækur. Ég hef lesið mörg viðtöl við Sally, svo mörg að mér finnst ég þekkja hana svolítið. Hún virðist vera það sem kallað er á mínu heimili almennileg manneskja (það er mikið hrós). Í viðtalinu sem ég las í morgun undir sænginni minni sagði hún á sinn látlausa hátt (ég kann vel við látleysi) frá bókunum sem hún les um þessar mundir. Hún er sílesandi, konan. En mér kom á óvart að hún ber alltaf eina bók með sér hvert sem hún fer. Hvaða bók skyldi það nú vera? Getraun! Sexhundruð milljónir dollara í boði fyrir rétt svar, ferð til Parísar báðar leiðir og vasapeningar. Yo!
Ég svara spurningunni og hirði því sjálfur verðlaunin sem voru í boði Arionbanka. Sally Rooney hefur Nýja testamentið, enda vinsæl bók, meðferðis hvert sem hún fer. Já, þetta kom mér líka á óvart, en að sama skapi finnst mér þessar nýju upplýsingar gera hinn róttæka rithöfund enn áhugaverðari. (Mikilvægar upplýsingar: Sally les upphátt fyrir sjálfa sig þegar hún les skáldsögur. Þetta fannst mér einnig áhugavert. Ég hef tekið upp á því á síðustu árum að lesa upphátt fyrir sjálfan mig þegar ég er einn. Þetta er svo fín aðferð til að lesa bækur. Þessu er hér með komið á framfæri.)
En talandi um áhugavert fólk. Hingað í sveitina kom óvænt (eins og bókaval Sally) í heimsókn ungur maður. Hann starfar í sömu atvinnugrein og ég. Satt að segja var hann einu sinni hálfvegis hinum megin við borðið, í sæti útgefanda, þegar ég var þar líka. Við eigum því ýmislegt sameinginlegt. Gesturinn (einn af þremur í gær) var enginn annar en Ragnar Helgi. Hann er almennilegur maður. (Það er aldeilis sem ég er heppinn að eiga svo marga skemmtilega og góða vini.) En Ragnar Helgi kom með bakarísbrauð – of stóran skammt – sem ég borðaði fram á kvöld eftir að hann var farinn. Bakarísbrauð, hvað er ég að borða slíkt? Mér verður illt í maganum.
En stóru fréttirnar eru, fyrir mig persónulega, að mér tókst í gær að setja síðasta punktinn í bókarhandritið sem ég hef verið að skrifa. Verkefnið í sjálfu sér – að skrifa bók – hefur glatt hjarta mitt meira en aðrir gleðjast yfir gnægð korns og víns. Ég hef lært að ekkert – heldur ekki löngun í frama, sölu, vinsældir eða athygli – má skyggja á sjálfa gleðina við sköpunina. En kannski var eins gott að ég setti punktinn strax upp úr hádegi því skyndilega var örtröð gesta hér. En punkturinn var þó varla þornaður þegar endurskrif hófust í gærkvöldi. Og strax gagngerar breytingar!
ps. Hinir gestirnir tveir voru ekki síður góðir menn en þeir tengjast fremur húsbyggingunni hér í Hvalfirði en mér sem einstaklingi.