Espergærde. Hið mikla ójafnvægi leiðrétt. F*ck.

Ég er kominn til Danmerkur eftir vel heppnaða ferð til Íslands. Í morgun sat ég hér í eldhúsinu og las Politiken á meðan ég drakk morgunkaffið mitt. Meðal annars rakst ég á frétt sem vakti nokkra undrun hjá mér, en auðvitað ætti fréttin ekki að vekja hina minnstu undrun – allt er eðlilegt. Í byrjun þessa mánaðar voru stofnuð í Bandaríkjunum ný bókmenntaverðlaun sem hafa fengið nafnið Carol Shilds Prize og þessi verðlaun eru sérstök að því leyti að 1) vinningshafinn getur bara verið kona og 2) að verðlaunaféð er með því hæsta sem gerist fyrir slík verðlaun, tæpar fimmtán milljónir íslenskar krónur. Til samanburðar má nefna að hin virðulegu Booker-verðlaun eru um 8,5 milljónir og Pulitzer 1,3 milljónir. Það er kanadíski rithöfundurinn Susan Swan sem stendur á bak við verðlaunin (en hún er studd af ónafngreindum styrktaraðila). Hún segir í viðtali í New York Times að tilgangur verðlaunanna sé að leiðrétta það ójafnvægi sem er í veittum bókmenntaverðlaunum milli kynja. Jeps.

Ég kom sem sagt til Danmerkur frá Íslandi í gær. Ég lenti á flugvellinum í Kastrup undir kvöld og tók lestina rúmlega átta til Espergærde. Kystbanen, eða lestin sem keyrir austurströnd Sjálands frá suðri til norðurs og aftur til baka, var troðfull af skemmtanaglöðu ungu fólki sem flest var á leið til veisluhalda. Við hlið mér sátu þrír ungir strákar, sem töluðu hátt og voru yfirhressir. Rifjuðu þeir upp fyllerí liðinnar nætur, tölu um væntanlega næturskemmtun milli þess sem þeir frussuðu yfir hvorn annan því brauðmeti sem þeir höfðu tekið með sér inn í lestina. Ég hlustaði ekki svo mikið á samtal þeirra en svakalega finnst mér það ljótur siður að segja „fucking“ í öðru hverju orði. Ég á rosalega erfitt með að venja mig við þennan sið í tali sums fólks.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.