Í morgun voru tveir mávar á flugi yfir baðbrúnni hér á ströndinni þegar ég gekk þar hjá. Ég hef alltaf haft hálfgerða andúð á mávum, mér finnst þeir ljótir og leiðinlegir fuglar. Ég skammast mín fyrir það. Þegar ég var smástrákur bjó ég til teygjubyssu til að skjóta niður mávana sem flugu yfir Álftamýrina. Mamma bannaði mér þetta en hún var eins og margir að henni þótti vænt um öll dýr. Hún stundaði meðal annars að setja matarafgana út á garðstéttina þegar kalt var í veðri svo villtu dýrin fengju að borða.
Ég freistaðist, þegar ég var í Hvalfirði, til að gefa músunum sem ég sá í kringum húsið á hlaupum í sjónum svolítinn ostbita á morgnana. Hitaveitustjóri sveitarinnar skammaði mig fyrir þetta þegar hann kom í heimsókn. „Mýs eru skaðræðisskepnur, þær eyðileggja rafmangsleiðslur, ljósleiðara og heitavatnseinangrunina í húsinu,“ sagði hann og eiginlega bannaði mér að gefa þessum litlu, fjörugu músum ost.
Í dag er einn af þeim dögum þar sem á mig sækir bæði löngun og þörf til að hlaupa út og vinna afrek. Mildi og mannslund eru orð sem sækja á mig.
Svona er það. Í morgun gekk ég ekki beint á vinnustofu mína heldur hafði ég allt í einu tekið stefnuna á kirkjugarðinn hér í bænum. Þetta er nokkuð fallegur kirkjugarður og mér finnst gott að ganga þar en ég forðast að líta á grafsteinana því ég er hræddur um að sjá nýja gröf ungs fólks. Mér finnst óþægilegt að reka augun í minnismerki um of stutt líf. Ég vil bara ganga á milli blómanna og trjánna án þess að lesa áletranir legsteinanna. Ég hlakka til að fara á fætur á morgnana, bara ekki of hratt og ég hlakka til að fara að sofa á kvöldin.