Espergærde. Fögur fyrirheit

Ég las ekki fyrir löngu ferðabók sem bar titil sem bæði var glæsilegur og – það sem var enn mikilvægara – í titlinum fólst saga sem mér fannst skrítin og áhugaverð. Titill bókarinnar er The Lost Pianos of Siberia. Þessi tegund bókmennta, ferðabækur eða bækur sem segja frá áhugamálum eða heillandi verkefnum fólks, finnst mér oft ansi skemmtilegar. Þessi bók var meira en ágæt en það sem truflaði mig svo var sjálfur titillinn og þær kröfur sem titill bókarinnar gerði til hennar. Í titlinum eru fögur fyrirheit, í honum felst að að baki hinum horfnu píanóum í Síberíu sé heillandi saga, en í rauninni var flest annað í bókinni (fólkið, sagan, harðræðið og undarlegheitin) áhugaverðara en einmitt þessi tilgerðarlega leit að píanóunum, sem er eiginlega þvinguð inn í bókina til að réttlæta þennan fína titil.

Mér datt þetta bara í hug þegar ég velti bókatitlum fyrir mér.

Í glugga vinnustofunnar hef ég valið að setja nýja bók – UGENS BOG – með athyglisverðan titil. Það er fyrsta bindi í sex binda verki Karl Ove Knausgaard: Min kamp I, sem fær heiðurinn að vera bók vikunnar. Í kvöld ætla ég nefnilega inn til Kaupmannahafnar og hitta norskan félaga minn (og félaga Karl Ove) og borða með honum kvöldmat. Kannski heyri ég skemmtisögur af rokkstjörnu bókmenntanna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.