Eitt sem sækir á huga minn – annað en dans og gleði engla um nótt í Hvalfirði – eru íbúar hússins hér andspænis vinnustofu minni og morgungestir þeirra. Að minnsta kosti tvisvar í viku verð ég var við tvær Austur-Evrópskar konur fyrir utan bílhliðið á húsinu þeirra. Þarna standa þær og reykja sígarettur fyrir utan hvítan glæsibíl af Mercedes Benz tegund og bíða þess að bílhliðið opnist. Oft bíða þær lengi og þá reykja þær fleiri en eina sígarettu. En ég hef heyrt – maður heyrir margt í litlum bæ – að eigendurnir ætli að selja húsið og séu eiginlega á flótta undan mjög fullkominni raftækni sem stýrir húsinu; ljósum, tónlist, hita, hurðum, bílahliði og eftirlitskerfi hússins.
Saga hússins er þannig: Drykkfeldur eigandi kranaleigu keypti húsið sem er glæsilegasta hús bæjarins en var í nokkuð döpru ástandi þegar hann keypti það. Hann hafði þá nýlega selt kranafyrirtæki sitt fyrir 18 milljarða íslenskra króna. (Nú datt mér í hug að setja upphrópunarmerki til að undirstrika undrun mína) Þetta var árið 2006. Hluta peninganna notaði hann til að gera þetta glæsihús upp og fyllti það upp í rjáfur af tæknibúnaði til að gera líf íbúanna áreynslulaust og þægilegt. Árið 2018 seldi hann húsið, enda höfðu þau hjónin skilið vegna sídrykkju hans (á áfengi).
Kaupendurnir voru efnaðir Englendingar. Kaupverðið var svimandi hátt: Heilar 500 milljónir. En nú vilja Englendingarnir út, þeir vilja selja húsið, því þeir geta alls ekki stýrt tæknibúnaði hússins sem virðist lifa sínu eigin lífi: Spilar tónlist að eigin vali á tímum sem hentar ekki eigendunum. Kerfið á það til að hita húsið upp úr öllu valdi svo stundum er dögg á gluggum eins og í saunabaði og á öðrum tímum slekkur kerfið á hitabúnaðinum svo gluggar verða hrímaðir. Ljós kviknar mitt um nætur og ómögulegt er að kveikja lesljós á kvöldin þegar myrkur hefur lagst yfir … svona er þetta hjá Englendingunum og því vilja þau út.
Ég veit ekki hvort hinar síreykjandi Austur-Evrópsku konur tengjast vandræðunum vegna tæknibúnaði hússins, þær eru að minnsta kosti tíðir gestir og stundum virðist það vera svo að tæknin sem stýrir bílahliðinu og opnar fyrir þeim stendur mjög á sér þegar þær vilja inn svo þær neyðast til að bíða. Þeim virðist leiðast biðin í félagsskap hvor annarrar og sígarettnanna sinna því þær mæta mér með fílusvip og kaldri öxl þegar ég kem arkandi eftir götunni snemma morguns.
Talandi um tækni: Ég veit ekki hvernig ég hef farið að því en mér hefur tekist að tengjast hátalaranum í sumarhúsinu í Hvalfirði með tölvunni minni sem er hér hjá mér í Danmörku. Ég get spilað tónlist í Hvalfirði þótt ég sé fjarverandi. Stundum leik ég mér að því að leika tónlist í húsinu þótt þar séu engir nema englarnir. Mér finnst þeir eigi að fá að hlusta á fallega tóna. Í morgun spilaði ég ansi fína hljómplötu þar sem Damon Albarn flytur eigin tónlist. Á hljómplötu hans,i Everyday Robots, er tónlist sem ég held að bústnu englarnir mínir í Hvalfirði kunna að meta. Ég hef það líka sem reglu að finna fallega tónlist á kvöldin sem ég leik í gegnum Spotify svo hún hljómar í Hvalfirði yfir nóttina Ég held að það geri heiminn betri og ég er ekki að grínast.
Á morgun verða fyrstu tilnefningar (longlist) til Alþjólegu Bookerverðlaunna. Hingað hafa borist fréttir, sem sagt til hins stórnefjaða fyrrum forleggjara, að óvæntra tíðinda sé að vænta.