Espergærde. Sólóferillinn er hafinn

Í gær safnaði ég öllum fundum vikunnar á einn dag. Ég gerði sem sagt ekki handtak. Fundir, það er ekki uppáhaldsiðja mín. Hingað á skrifstofuna kom maður í gærmorgun sem átti erindi við mig og svo fór ég inn til Kaupmannahafnar um hádegi. Einn af fundum dagsins var hjá hinum nýstofnaða spútnikforlagi Gutkind. Forlagið er í eigu sænska forlagsrisans Bonnier en starfsmennirnir koma flestir frá gamla Rosinante-forlaginu sem var leyst upp fyrr á árinu.

Gutkind-fólkið þekki ég frá mínum dögum sem forleggjari og þau höfðu boðað okkur Sus á sinn fund. Í mínum huga var þetta fyrst og fremst kurteisiheimsókn en í ljós kom að þau höfðu hugmyndir um samstarfsverkefni. Við megum ekki vinna fyrir annað forlag eða hjálpa því á neinn hátt nema í beinu handverki; ritstýringu, þýðingum, prófarkalestri… ekkert sem viðkemur vali á bókum eða slíku… Við erum enn bundin af samningi við Politiken og sá samningur rennur út í sumar. En Sus má ritstýra bókum og þýða á dönsku og kannski tekur hún slík verkefni að sér fyrir Gutkind. En ég sagði strax að ég hefði hafið minn eigin sólóferil og hefði ekki áhuga á að vinna við forlagsrekstur.

Í lestinni á leiðinni heim frá Kaupmannahöfn fór ég að hugsa hvað ég mundi gera öðruvísi ef ég settist aftur í forlagsstól og hefði í höndunum splunkunýtt forlag sem ég ætti að byggja upp. Í raun hef ég lært meira um forlagsrekstur af því að sitja hinum megin borðs, að skrifa bækur í stað þess að gefa þær út, meira en ég hefði getað ímyndað mér. Og einmitt þessi reynsla mundi nýtast mér. Ég hef stundum íhugað að skrifa til forlagsins á Íslandi (Forlagið) sem gaf út bókina mína og segja frá reynslu minni að vera í hlutverki höfundar hjá þeim og hvað ég sem forleggjari mundi gera öðruvísi. Ég er viss um að Forlagið gæti orðið betra forlag ef þau fengju ábendingar frá höfundum sínum um hvað þau gera vel og hvað má bæta. En ég hef enn ekki látið verða af því. Þetta má ekki misskiljast. Ég hef alls ekki undan neinu að kvarta, það hef ég bara ekki. Kannski ég herði mig upp og skrifa bréf til Uú, Egils, Æsu, og markaðsdeildar.

Á ferli mínum sem útgefandi fannst mér verst að frétta út í bæ af baktali minna eigin höfunda. Ég gat orðið alveg galinn í hausnum, bæði leiður og hálfreiður. Mér þótti vont að fólk gat ekki komið með óánægju sína beint til mín í stað þess að ræða hana út í bæ. Maður hefur alltaf áhuga á að bæta sig, en maður á minni möguleika á slíku ef ekki berast ábendingar um hvað gæti betur farið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.