Ég hef verið boðaður til Reykjavíkur eftir rúma viku en þar sem svo stuttur fyrirvari var á þessu boði – og af því ég er nýbúinn að dvelja hálfan mánuð á Íslandi – hef ég ákveðið að koma ekki þótt ég hefði haft gífurlega gaman að taka þátt í þeim viðburðum í næstu viku sem mér var boðið til. Ég er þó ekki leiður yfir ákvörðun minni; ég get bara ekki verið á þessu flakki.
Í gær fór allt í steik, nei, ekki allt. Ég komst bara ekki í að gera neitt, ekki einu sinni að skrifa dagbók dagsins. Hingað til Espergærde komu í gær hjón sem ég þekki ágætlega. Jakob Levinsen, sem hefur þýtt fyrir okkur nokkrar bækur og er hraðvirkasti og vandvirkasti þýðandi sem ég hef unnið með um ævina. Hann er gangandi sérfræðingur í ólíklegustu hlutum: Stephen King, óperum, þýskum hvítvínum, Agöthu Christie … eiginlega er varla til það svið sem hann er ekki sérfræðingur í. Konu hans Önnu Maríu þekki ég ekki eins vel en hún er rithöfundur. Þau búa í höll, það er að segja þau leigja íbúð í glæsilegri höll rétt við Køge (suður af Kaupmannahöfn). Við höfum tvisvar sinnum verið boðin til þeirra í höllina og því var kominn tími á að við endurguldum boð þeirra. Við höfðum hitt Jakob í afmæli hjá Gyldendal og spurðum hvort hann vildi ekki koma í heimsókn. Við værum laus þessa helgi, föstudag, laugardag og sunnudag.
Jakob sendi svo bréf þar sem hann þáði boðið og vildi helst koma í hádegismat í gær, föstudegi! Hádegismat! Ekki hafði ég reiknað með að fá gesti í hádegismar. En hádegismatur skyldi það vera. Gærdagurinn var sem sagt undirlagður matar undirbúningi fyrir hádegismat (það þurfti að vera þríréttamáltíð fyrir þessa konunglegu gesti því þegar Jakob hefur boðið okkur hefur hann lagt líf og sál í matargerðina. Allt hefur verið svo fínt hjá þeim, maður er svo velkominn og þau gerða allt til að manni líði vel. Þetta vildum við auðvitað endurgjalda). Klukkan hálftíu í gærmorgun hófst undirbúningurinn og gestirnir fóru upp úr fjögur. Við fylgdum þeim á lestarstöðina og þar hittum við Jesper K. sem vildi endilega opna rauðvínsflösku og fá okkur í föstudagsbar heima hjá honum. Sú heimsókn stóð langt fram á kvöld og því sátu mín góðu dagbókarskrif á hakanaum eins og annað sem ég tek mér venjulega fyrir hendur á virkum degi. Ég tek það fram að var það var stórkostlega gaman að fá Jakob og Önnu Maríu í heimsókn.
Hillary Mantel er enskur rithöfundur og hefur nú skrifað þrjár langar og miklar bækur um Thomas Chromwell (hann spilaði stórt hlutverk í hirð Henriks VIII). Hillary vann Bookerverðlaunin fyrir fyrstu bókina um Thomas sem hét Wolf Hall. Hún hlaut líka Bookerverlaunin fyrir bók tvö í þríleiknum um Cromwell (Bring Up the Bodies) sem kom út árið 2012. Nú um þessar mundir er þriðja bók hennar um Thomas Cromwell að koma út. Eftir átta ára hlé. Ég hef lesið nokkur viðtöl við Hillary (ég hef gaman af viðtölum við duglegt fólk) en það eftirminnilegasta úr þessum viðtölum er lýsing á vinnustofu Hillary sem er eiginlega stór íbúð. Á veggjum er nákvæm skráning á ferðum og athöfnum Thomasar Cromwell. Til dæmis: „15. nóvember til 19. nóvember 1530: Thomas er sennilega staddur í Budleigh Salterton, Englandi.“ Þetta þótti mér heillandi. Ég gæti ekki einu sinni gert slíkt kort yfir minn eigin lífsferil. Hvar var ég fyrir tuttugu árum: 29. febrúar árið 2000? Ég hef ekki hugmynd og sennilega gæti ég ekki komist að því.