Espergærde. Heimsókn konu og erindi hennar.

Ég var vart sestur niður á stólinn hér á vinnustofunni þegar dyrnar opnuðust og inn kom ung, grönn og spengileg kona með síðar rastafléttur. Það var eins og hún væri eitthvað óánægð því í augum hennar las ég hörku og strangleika. Hún bauð samt góðan daginn og afsakaði að hún skyldi ráðast svona inn á mig. Ég kannaðist við konuna því hún gengur oft hér framhjá með hundinn sinn sem hún þó hafði ekki meðferðist í morgun. Og hún hefur áður kíkt hingað inn og fengið kaffibolla.

„Góðan daginn,“ svaraði ég og beið þess að hún bæri upp erindið eða segði mér frá hvað olli þessum neikvæða titringi sem stafaði frá henni. En það var eins og hún hikaði, hún horfði ekki í augun á mér heldur horfði út í gluggakistuna þar sem ég stilli fram vikulega „ugens bog“ mér til skemmtunar.
„Viltu kaffi,“ spurði ég vinsamlega.
„Já, kannski,“ sagði hún og ég benti henni á að setjast niður í hægindastólinn í horninu á meðan ég hellti kaffi í bolla fyrir hana. Ég fann að hún bar með sér góða lykt þessi unga kona þótt straumarnir frá henni væru ekki svo þægilegir

Þegar ég afhenti henni rjúkandi kaffibollann kom hún sér loks að erindinu.
„Lestu bara bækur eftir karlmenn?“
„Af hverju spyrðu að því,“ sagði ég sennilega í nokkurri varnarstöðu.
„Bók vikunnar, er eftir karlmann (bók vikunnar er nú Hin höndin, eftir Chris Cleave). Bók síðustu viku var líka eftir karlmann (það var Min kamp, eftir Karl Ove Knausgård) … bara karlmenn…“
„Hvaða bók var vikuna á undan Knausgård?“ spurði ég.
„Það man ég ekki,“ svarði unga konan og setti sig framar á stólbríkina augljóslega tilbúin til að berjast við mig.
„Ég get vel sagt þér það, það var bók eftir konu, Donna Tartt. Og ég les alls ekki bara bækur eftir karla. Um þessar mundir les ég til dæmis bók eftir Agatha Christie hún er eftir minni skilgreiningu kona. Ég veit ekki hvað fær þig til að koma hingað inn með þennan óánægjusvip og bera upp einhvers konar ásakanir. Og þótt ég læsi bara bækur eftir karla væri það nú bara mitt val sem þér kæmi ekkert við. En svo vill til að ég les ekki bækur eftir því hvaða kyn höfundurinn hefur. Ég les af áhuga fyrir efninu óháð kyni höfundarins. Og ég get sagt þér að ég held að ég lesi kannski fleiri bækur eftir konur en karla ef þær upplýsingar gera líf þitt ánægjulegra.“
Ég held að hún hafi ekki átt von á svo árásargjörnu svari því hún þagnaði og hallaði sér aftur í hægindastólinn.
„Þú lest alveg rosalega mikið … er það ekki,“ sagði hún og reyndi að láta aðdáun hljóma í röddinni. Nú brosti hún blíðlega og fékk sér sopa af kaffinu. „Fyrirgefðu að ég ryðst svona inn á þig. Mér finnst bara áhugavert að þú veljir bók vikunnar … karlmaður.“
„Karlmaður?“
„Já, þú ert karlmaður … það eru ekki margir karlmenn sem myndu setja bók út í glugga …“
„Já, það er áhugavert að einhver fær þá hugdettu að velja bók vikunnar og stilla út í glugga en væri það eitthvað öðruvísi ef það væri kona sem veldi bók vikunnar?“
Hún hugsaði sig um og svarði síðan blíðlega: „Fyrirgefðu. Þetta er bara rugl í mér.“

ps fyrir mörgum mánuðum byrjaði ég á bók Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru eftir Hauk Má Helgason. Ég komst lítið áleiðis í lestrinum þótt ég reyndi að berjast áfram og langaði satt að segja að halda með bókinni. En að lokum var ég að játa mig sigraðan; sagan og frásagnarhátturinn höfðaði ekki til mín. Ég velti bókinni svo sem ekki fyrir mér þar á eftir eða hugsaði frekar um uppgjöf mína gagnvart bókinni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég gefst upp á að lesa bók – það eru víst margar bækur sem ég hef ekki þolinmæði fyrir. En í gær eða fyrradag tók ég eftir að bókin hefur verið valin bók vikunnar á Rás 1 og sennilega var það þess vegna að mig dreymdi höfundinn í nótt (ég held að ég hafi aldrei hitt manninn augliti til auglitis) og það var sannarlega ónotalegur draumur þar sem höfundurinn var gífurlega óánægður með að ég skyldi ekki hafa haft ánægju af lestri bókar hans og hann atyrti mig og viðhafði allskyns athafnir sem bæði voru ógnandi og óþægilegar. Furðulegt að þessi bók og höfundur hennar heimsæki eða ofsæki mig í draumi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.