Espregærde. Andi tímans og skynsemin.

Í dag er 3. mars og ef ég hefði búið á Íslandi og ef ég gæti flutt mig afturábak í tímanum, hefði ég ábyggilega farið í heimsókn í Álftamýrina. Þar hefði án efa allt ilmað af pönnukökubakstri og kaffi. Og kannski vindlareyk. Afmælisbarnið, pabbi minn, hefði fussað yfir afmælisgjöfinni sem ég hefði haft meðferðis; vindlapakka eða blárri dós af Capstan píputóbaki. „Æ, Snæi minn, þú átt ekkert að vera að gefa mér neitt. Ég þarf ekki neitt.“ Svo hefði ég fengið koss á vangann. Og þótt pabbi hefði rakað sig vandlega um morguninn, eins og alltaf, hefði ég samt fundið skeggbroddana stingast inn í kinnina á mér.

Mörgum árum fyrr, en tæpri viku síðar, það er þann 9. mars, var Virigina Woolf, sú þjáða kona, að pakka handriti að fyrstu skáldsögu sinni, The Voyage Out, í umslag því hún ætlaði út á pósthús og senda handritið til útgáfufyrirtækis sem hálfbróðir hennar rak. Hálfbróðirinn hét Gerald Duckworth og hann hafði ekki hreint mjöl í pokahorninu því síðar fundust leynilegar dagbækur þar sem opinberaðist að Gerald og bróðir hans höfðu komið sérdeilis illa fram við Virginu; hótað henni og misnotað. En það kom ekki í veg fyrir að Virginia ákvað þennan dag í marsmánuði árið 1913, 32 ára gömul, að senda fyrsta skáldsöguhandrit sitt til hans. Þetta sama ár kom bókin hennar út og seldist í 50 eintökum. 16 árum síðar höfðu 479 eintök selst.

ps. Nóg um marsmánuð. Ég varð vitni að samtali í gær sem varð til þess að ég hugsaði með mér: Þegar tíðarandinn breytist verður maður í alvöru að einbeita sér að hinni heilbrigðu skynsemi. Því tíðarandinn hefur svo mikil áhrif, hefur svo mikil völd yfir hugsun okkar, og þegar tíðarandinn breytist á ný á maður erfitt með að skilja að maður hafi getað látið gamla tíðarandann, sem er horfinn, ráða hvernig maður leyfði sér að hugsa.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.