Espergærde. Furstynjan og drengurinn sem hvarf.

Ég tók til þess ráðs í gær, til að fá betri yfirsýn, að setja bókina sem ég er að skrifa á síður. Þannig birtist textinn mér eins og blaðsíður í bók og það þykir mér oft gagnlegt þegar ég er búinn að hjakka yfir sama texta mánuðum saman. En nú er textinn sem nýr, situr fallega á síðum í bókarstærð með réttum spássíum, réttri leturstærð og fallegu leturbili. Ég fór að hugsa um það í gærkvöldi að ég hafi verið nokkuð fljótur að skrifa þessa bók, bók 2 í Álftabæjarseríunni, yo! Ég byrjaði í nóvember og hef þurft að taka mér frí af og til, viku hér og viku þar, en nú er ég að verða búinn, rúmum þremur mánuðum síðar. Mér þótti þó aðeins verra að bókin er svolítið löng; 380 blaðsíður. Ég stytti og stytti og strax í morgun hafa tvær blaðsíður horfið út í hinn eilífa bláma.

Í tengslum við þetta. Ég las það einu sinni að þegar Thomas Mann sat á hóteli í Feneyjum þar sem hann skrifaði bækur sínar (það er almennilegur stíll yfir því) fékk hann landa sinn í heimsókn. Ég held að hann hafi heitið Oscar Bie. Oscar þessi var svo heillaður af samtali sínu við rithöfundinn að þegar hann sneri aftur til Þýskalands keypti hann heilsíðuauglýsingu í desemberhefti Neuer Rundschau. Auglýsingin var handskrifuð af sjálfum herra Bie og var þar vaktin athygli lesenda á því að Thomas Mann væri fljótlega tilbúinn með nýja skáldsögu og skyldi hún heita Læringur töframannsins. Margir tóku eftir þessari auglýsingu og varð hún og væntanleg bók samtalsefni fólks á götum úti. Var tilhlökkun í þjóðinni að fá nýja skáldsögu frá stórskáldinu. Vandinn var bara sá að Oscar hafði ekki skilið titil bókarinnar rétt. Heiti bókarinnar sem Thomas Mann vann að var Töfrafjallið.

Ég segi frá þessu hér því ekki kæmi mér á óvart að einhver lesandi Kaktusins tæki upp á því hjá sjálfum sér að auglýsa á stóru götuskilti við fjölfarna götu í Reykjavík eða á góðum útsendingartíma í sjónvarpi að brátt skili ég handriti að bók sem nú um þessar mundir væri verið að leggja lokahönd á. Titill bókarinnar er nú: Furstynjan og drengurinn sem hvarf.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.