Enn rignir á mig á leið minni til skrifstofunnar. Hér er ekki sól, dekur og hiti heldur kalt og blautt. Í gær fór ég að hugsa um Thomas Mann, Töfrafjallið og líf rithöfundar í byrjun tuttugustu aldarinnar. Þegar Thomas sinnti ritstörfum gisti hann oft á hótelum í heitum löndum vikum og mánuðum saman til að fá frið og næði til að einbeita sér að bókarskrifum. Frægt er vellystingarhótelið sem Thomas gisti á í Feneyjum, Grand Hotel des Bains sem byggt var fyrir efnaða ferðamenn í kringum aldamótin 1900. En sumir segja að Thomas hafi fundið sviðmynd fyrir Töfrafjallið þegar hann gisti á öðru vellystingahóteli í Davos í Sviss sem heitir Waldhotel. En það var ekki þetta sem ég var að hugsa heldur hvernig gátu rithöfundar á þessum tíma leyft sér að dvelja á hótelum langtímum saman? Hvernig höfðu þeir efni á því?
Ég las einu sinni að Reiner Maria Rilke hefði dvalið í marga mánuði á hótelinu Reina Victoria í bænum Ronda á Suður-Spáni þegar hann samdi Duínó elegíurnar. Ljóðskáld á lúxushóteli! Laxness á Hotel d’Angleterre, flottasta hóteli Kaupmannahafnar … Þetta er góð strategía að leita í sól, dekur og hita samhliða ritstörfum og maður ætti að taka hana upp.
Í rekstri míns skrifverkstæðis er þó enn ekki alveg nógu miklar tekjur til að ég geti leyft mér hóteldvöl í heitu landi. Satt að segja er afkoma skrifverkstæðisins svo slöpp að ég ætti ekki einu sinni að leyfa mér að kaupa kaffi fyrir vinnustofuna og ég hef íhugað það í alvöru hvort ég ætti að hætta að drekka kaffi á skrifstofunni og segja upp internetinu til að reyna að láta reksturinn hanga saman. Þetta er auðvitað furðulegur þankagangur en svona er maður innréttaður; ég er byggður til að láta fyrirtæki mín standa undir sér.