Espergærde. Ástæða til að fagna

Sjötti mars og í dag er ástæða til að fagna, eða það finnst mér. Síðustu yfirferð (í bili) yfir handrit er lokið og nú gæti ég sent það til míns góða ritstjóra hjá Forlaginu. Ætli ég geymi það þó ekki í salti yfir helgina.

Strax á mánudag byrja ég á nýju verkefni, nýju handriti. Allt á fullu hjá skriffabrikkunni; allt snýst um gleðina við sjálft verkið en um leið er unnið hörðum höndum við að gera verksmiðjuna efnahagslega sjálfbæra.

Annars var þessi föstudagur fullur af fundum og öðru sem truflar hugann. Ég þurfti að vera mættur inn í Kaupmannahöfn klukkan tíu í morgun þar sem ég átti stefnumót við núverandi forleggjara Hr. Ferdinand. Að loknum fundi brunaði ég svo inn í bæinn til að kaupa afmælisgjöf fyrir Sus og nú er ég búinn að kaupa þrjár afmælisgjafir fyrir hana (eina fann ég í bókabúðinni á Ráðhústorginu á meðan ég beið eftir Line frá Politiken). Í Politikens Boghal fann ég nefnilega smásagnasafn eftir Alice Munroe sem er hátt á vinsældarlista Sus yfir rithöfunda.

Í kvöld á ég svo von á gestum, hér er oft gestkvæmt, og það er fínt þegar hugur minn er laus (í bili) í baráttunni við handritið sem hefur nú fylgt mér síðan í nóvember. Nú byrja ég að undirbúa mat.

ps. þegar ég var táningur samdi ég lag á gítarinn minn sem hét Sjötti mars. Mér fannst titillinn svolítið flottur þar sem lagið var skrifað í hinum þrískipta valstakti.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.