Espergærde. Samtal við rithöfund

Á ferðum mínum á Íslandi var ég einu sinni sem oftar staddur í bókaverslun í Reykjavík í þeim erindagjörðum að kaupa einhverja bók. Við afgreiðslukassann stóð ungur maður sem heilsaði mér kumpánlega þegar ég lagði bókina á borðið. Ég heilsaði jafn kumpánlega til baka þótt ég kannaðist ekkert við manninn.
„Manstu ekki eftir mér?“ spurði afgreiðslumaðurinn. Ég virti fyrir mér hávaxinn, ungan mann með silfurspangargleraugu og fíngert ljóst hár sem hann greiddi til hliðar. Þetta var viðkunnanlegur maður en ég mundi ekki eftir að hafa séð hann áður.
„Nei, fyrirgefðu, ég er svo ómannglöggur. Ég man ekki eftir að við höfum hist áður,“ svaraði ég.
„Ég kom einu sinni með ljóðahandrit til þín … á forlagið.“
„Nú, já. Ég vona að ég hafi tekið vel á mót þér.“
„Já, þú tókst alveg ágætlega á móti mér og bauðst meira að segja til að gefa handritið út.“
„Já, gerði ég það? En bókin kom aldrei út eða hvað?“
„Nei, vegna þess að þú settir það skilyrði að ég væri góður að spila fótbolta. Það var í bígerð einhver fótboltaleikur milli Bjarts og Máls og menningar og þig vantaði góða fótboltamenn í Bjartsliðið. En ég kann ekki fótbolta svo þú dróst tilboðið um útgáfu til baka.“
Við hlógum að þessu.

Ég rifja þennan fund minn við hið óheppna ljóðskáld og afgreiðslumann í bókabúð (bók hans kom víst aldrei út og hann lagði pennann á hilluna) vegna þess að ég átti ágætt samtal við annan rithöfund, félaga minn hér í Danmörku. Félagi minn rithöfundurinn er frekar harður í dómum sínum og hann hélt því fram að getan til að skrifa góðar bækur hefði miklu minna að segja um hvort maður fengi útgefna bók en: útlit höfundarins, hæfni höfundarins til að kynna sig og kasta björtu ljósi á sjálfan sig og hvaða kunningja og vini höfundurinn á.

Ég get að sumu leyti tekið undir þetta. Ég man eftir ungum rithöfundi sem kom inn af götunni inn á Bjartsforlagið með handrit í umslagi og hann rétti mér handritið með orðunum. „Ég hef skrifað alþjóðlega metsölubók. Hérna er handritið. Gjörðu svo vel.“ Hann sagði þetta af svo mikilli sannfæringu að ég trúði manninum. Þetta handrit lenti efst í handritabunkanum hjá mér. Að vísu gaf ég söguna aldrei út vegna þess að mér fannst hún ekki nógu góð. En bókin kom hjá öðru íslensku forlagi, en varð ekki alþjóðleg metsölubók heldur venjulegt íslenskt flopp.

Annað sem vinur minn rithöfundurinn hefur á perunni er að það sé ekki rétt í nútíma íslensku samfélagi að möguleikar karla til útgáfu handrits séu meiri en konu, að möguleikar karls á viðurkenningu séu ekki meir en konu, og að möguleikar á góðri gangrýni, athygli og sölu séu ekki meiri hjá karlmanni en konu. „Ef eineggja tvíburar fæðast á Íslandi og alast upp saman. Annar tvíburinn væri karl og hinn kona (ef það væri mögulegt) þá ættu þessir tveir einstaklingar nákvæmlega sömu möguleika á frama á bókmenntavettvanginum á Íslandi.“

Þetta var nú umræðan hér yfir kvöldmatnum í gær.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.