Espergærde. „Getur þú lesið það sem ég skrifa?“

Ég hef það fyrir sið að bera með mér litla minnisbók hvert sem ég fer. Þar skrái ég hjá mér minnispunkta; færi á blað hugmyndir sem mér þykja gagnlegar við bókarskrif. Þetta er hjálplegt þegar maður hefur margt í huganum og vill ekki gleyma snilldarhugmyndum. Ég heyrði einu sinni sögu af hinum góða manni Pétri Gunnarssyni meistara minnisbókanna eða vasabókanna. Samkvæmt sögunni gengur hann varla tíu skref án þess að færa sínar góðu hugmyndir í minnisbók. Þær koma svo ört. Mun Pétur oft á dag gleyma sér undir stýri á rauðu ljósi til að færa mikilvæga punkta inn í vasabók sína og skapar ægilegt öngþveiti í umferðinni í Reykjavík.

Ég segi frá þessu hér þar sem ég var að fara í gegnum minnisbók sem ég nota til að halda utan um nýjar hugmyndir. Og nú verð ég að viðurkenna að stundum skrifa ég svo illa í flýtinum að ég á stundum erfitt með að skilja skriftina. Minnti mig þetta á bréf sem Franz Kafka skrifaði til Felice Bauer en þau höfðu skipst á sendibréfum í margar vikur og Franz hafði sent yfir 200 bréf þegar hann fékk stórkostlegt kvíðakast. Hingað til hafði kvíði hans verið mestur yfir að hann yrði vitni að því þegar kona, jafnvel Felice, fækkaði fötum í hans viðurvist. En nú tók annað efni yfir sem vakti jafnvel enn meiri kvíða. Í bréfi númer tvöhundruð til Felice Bauer skrifar Kafka í öngum sínum: „Hvernig er það getur þú lesið það sem ég skrifa?“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.