Espergærde. Þótt gróði ólífutrésins bregðist

Ég hafði farið út að borða með Sus og strákunum á sunnudagskvöldið inni í Kaupmannahöfn. Allt gott nema mér tókst einhvern veginn að týna peningaveskinu mínu á leiðinni frá veitingastaðnum mitt í höfuðborginni. Ég var kominn heim og klukkan var að nálgast miðnætti þegar mér berst skeyti frá konu sem sagðist hafa fundið peningaveskið mitt á gangstétt við Nansensgötu. Ég hafði ekki einu sinni tekið eftir að veskið mitt var horfið.

Í gær fór ég svo með lestinni inn í borgina til móts við þessa konu. Hún vann á Sticks and Sushi veitingastað og þar mæltum við okkur mót. Þetta var bjartleit kona á miðjum aldri sem sagðist heita Nora. Ég sá að allt innihald veskisins var óhreyft, öll kort á sínum stað og allir þeir peningaseðlar sem ég hafði meðferðis (af einhverjum ástæðum geng ég alltaf með dollara, evrur og danskar krónur í veskinu) Ég tók alla seðlana upp og rétti konunni sem fundarlaun.
„Nei, takk,“ sagði hún. „Hvers vegna ættir þú að gefa mér peninga fyrir að hegða mér eins og réttlát kona.“
„Ég vil launa þér heiðarleikann,“ sagði ég og otaði peningunum aftur í átt til hennar. Hún virti peningana ekki viðlits.
„Mig langar að segja þér svolítið,“ byrjaði hún. Það var myndugleiki í röddinni. Þetta er nononsens-kona hugaði ég. „Sennilega þykir þér skrýtið að ég segi þér þetta. En ég er alin upp við það að mamma mín bað til Guðs þrisvar á dag. Á miðjum degi, á kvöldin og það var hennar fyrsta verk á morgnana. Í hennar huga beið hennar dagur helgaður verkum sem voru Honum þóknanleg. Á hverju kvöldi taldi hún upp verk sín, orð og hugsanir til þess að meta hvort þau hafi verið í Guðs anda. Ég held að öllum hafi þótt líf hennar einsleitt og leiðinlegt, en það er vegna þess að þeir hafa ekki skilið tilganginn. Hún var full af gleði. Sál sína taldi hún svo dýrmætan fjársjóð að hún bar hana í gegnum lífið á silfurfati.“

Ég var ekki alveg viss hver var ástæða þess að hún vildi segja mér frá mömmu sinni. Var það til að útskýra að hún vildi ekki þiggja fundarlaun? Eða vildi hún miðla mér gleði Guðstrúarinnar? En svona var það nú. Engin fundarlaun þáði þessi góðviljaða kona önnur en þakklæti mitt.

ps. Ég las að bókaforlag í Bandaríkjunum hefði hætt við útgáfu á æviminningum Woody Allen. Hópur starfsmanna hafði hótað að leggja niður vinnu ef bókin yrði prentuð vegna andúðar þeirra á Woody og vegna þeirra ásakana sem hann er borinn af stjúpdóttur sinni.

pps. Ég var næstum búinn að gleyma að minnast á og fagna inni í mér að barnabókin sem ég skrifaði var tilnefnd til verðlauna í gær. Yo! Barnabókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar. Ég náði ekki að vera viðstaddur tilnefningarathöfnina þótt ég hefði haft gaman af því, en ég flaug ekki til Íslands af þessu tilefni (Co2!!!). Þótt fíkjutréð beri ekki blóm og vínviðurinn engan ávöxt, þótt gróði ólífutrésins bregðist og akrarnir gefi enga fæðu; þótt sauðfé hverfi burt út kvíum og nautgripir úr fjósum skal ég gleðjast. Launin eru vinnan sjálf, sjálf bókarskrifin.

ppps. Mér fannst bókin mín líka í góðum hópi bóka og ég fann fyrir örlitlu stolti að hafa fengið að vera með í þessum hópi því þær bækur sem ég hef lesið af þessum fjórum eru mjög fínar:
Hildur Knútsdóttir: Nornin.
Gunnar Helgason: Draumaþjófurinn.
Margrét Tryggvadóttir: Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar.

pppps. Nú er ég búinn að senda bók 2 í Álftabæjarseríunni (hehe) til ritstjóra Forlagsins og strax búinn að ryðja borðið mitt fyrir nýju verkefni sem ég á að skila 22. mars. Allt á fullu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.