Espergærde. Ónýtt handrit

Enn dregur til tíðinda. Nú hef ég sagt upp vinnustofunni minni. Það var svo sem ekki ætlunin en þegar leigufélagi minn, sem er hér aldrei, kom í gær og vildi flytja út varð ég að horfast í augu við að ég get ekki haldið vinnustofunni einn. Efnahagsleg sjálfbærni skrifverkstæðisins míns er í húfi og skrifverkstæðið hefur ekki peninga til að greiða hærri leigu. Ég flyt því heim, að minnsta kosti í bili, þann fyrsta júni.

Ég á auðvitað eftir að sakna þessarar vinnustofu þótt hún búa alls ekki yfir neinum þægindum, þvert á móti. Hér er ískalt þótt ofnar séu á fullu og ég þarf að vera í jakka eða ullarpeysu og með teppi á lærunum til að halda hita. En hér er þögn og einvera og ég á auðvelt með að einbeita mér þegar ég sit yfir verkefnum mínum.

Nú er handritið að hinni margboðuðu bók komið í yfirlestur og mér verður hugsað til félaga míns Kazuo Ishiguro sem varð að henda heilu handriti að bók eftir að kona hans las yfir fyrir hann. Átsj. Allt var handónýtt og gjörvalt handritið lenti í ruslatunnunni svo hann varð að byrja upp á nýtt. Tveimur árum síðar hafði hann unnið bókmenntaverðlaun Nóbels.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.