Espergærde. Afmælisboði aflýst.

Yfir öllu liggur þykkt áhyggjuteppi, allt hér er gegnumsýrt af þessum vírus, endalausar fréttir af vírus. Það er aldeilis þungt yfir finnst mér. Í kvöld hafði mér verið boðið í gott afmælisboð og ég hafði hlakkað til glaums og gleði, en nú hefur afmælisbarnið blásið veisluhöldin af. Alltof margir höfðu afboðað komu sína eða tjáð áhyggjur sínar yfir því að koma í afmælið svo afmælisbarninu fannst hann ekki geta annað en aflýst öllum hátíðarhöldum. Æ.

Ég finn líka fyrir þyngslunum þegar ég geng eftir götum bæjarins á leið til vinnustofu minnar. Það er eins og allir hafi lokað sig inni og þannig er það líka, fólk lokar sig inni og ætlar að bíða af sér fárið. Gott að ég lifi ekki í stríðshrjáðu landi í stríðshrjáðum bæ. Það er örugglega skelfilegt.

Nú er Plága Alberts Camus á allra vörum – allra vörum, já eða þannig. En ég átti samtal við mann í gær (tveggja metra fjarlægð haldin á meðan samtali stóð) sem einmitt hafði keypt sér bókina hans Camus í tilefni af þessari nýju plágu. Mér finnst ég satt að segja fá nóg af plágutali og furðaði mig á einhver nenni að bæta Plágu Camusar á sálina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.