Espergærde. Staðan fyrir 14 árum.

Þann 16. mars 2006 bar það til tíðinda á Íslandi að JPV útgáfa sendi frá sér kiljuútgáfu af Flugdrekahlauparanum eftir Khaled Hossini. Nokkrum mánuðum fyrr hafði bókin komið út í innbundinni útgáfu og fengið afar lofsamlega dóma. Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði í DV að „ … bókin hitti í hjartastað.“ Halldór Guðmundsson skrifaði í Fréttablaðið að „ … bókin væri hreint ótrúlega áhrifamikil.“ Karl Blöndal hjá Morgunblaðinu sagði að sagan væri ekkert minna en „… gimsteinn.“ …

Það voru fleiri sem skrifuðu fallega í fjölmiðla um þessa góðu bók og bókin seldist í stóru upplagi bæði í innbundinni útgáfu rétt fyrir jól 2005 og svo árið eftir þegar prentuð voru tugþúsundir eintaka í kilju. Ekkert af þessu gæti gerst í dag; hvorki birting allra þessara ritdóma eftir svo kröftuga ritdómara, né þetta stóra prentupplag í tveimur mismunandi útgáfum né þessi mikla sala. 14 ár eru líka liðin. En hver er ástæðan fyrir þessari hnignun? Ætli þessu verði einhvern tíma snúið við?

Mér datt þetta bara í hug þegar ég fékk óvænt sendan metsölulista Eymundsson fyrir síðustu viku. Mér fannst hann eitthvað svo sorglegur. Ég hafði ekki beðið um að fá listann sendan. Sennilega hef ég fyrir slysni lent inn á einhverjum póstlista. En ég tók eftir því að engin bók sem hafði komið út á síðasta ári, var nú á metsölulista. Ekki einu sinni sjálf bókmenntaverðlaunabók Sölva Björns. Auðvitað veit ég að nánast engin sala er á bak við bækurnar á listanum og nóg að selja 30-40 eintök til að ná efstu sætunum. En mér fannst bara eitthvað sorglegt við að sjá deyfðina yfir listanum.

ps Til að lyfta mér upp og gleðja mitt litla hjarta hefur verið alveg einstakt bjartviðri. Það er eins og komið sé vor. Ég var léttur og glaður á göngu minni yfir akrana í morgun.

ps. Afmælisveislan fyrirhugaða og aflýsta var þrátt fyrir allt haldin, veislan endurfæddist einhvern vegin af sjálfu sér. Fámenn en góð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.