Espergærde. Er hreint sakavottorð nóg?

Bara fyrir seinni tíð skráset ég nú að í dag er allt samfélagið sýkt af Coronavirus og hér í DK eru allir meira og minna lokaðir inni hjá sjálfum sér. Þetta eru hálfömurlegir tímar og ég skrái líka að valdamesti maður heimsins í dag, Donald Trump, hélt ræðu þar sem hann náði sögulegum lágpunkti á annars undraverðum ferli sínum sem lélegasti forseti Bandaríkjanna. Það er alltaf eitthvað vont í getuleysi Trumps. Hann hefur enga samlíðan eða áhyggjur af öðrum; hann getur ekki skilið að þjáningar og erfiðleikar annarra eru ekta. Hann messar með eintóna röddu í ávörpum sínum um kærleika og samúð en þessi orð hafa greinilega enga merkingu fyrir honum. Það eina sem er ekta við hann er hin sakleysislega hégómagirnd hans. En hver djöfull hefur sinn tíma.

Ég hafði eiginlega lofað sjálfum mér að minnast aldrei á Donald Trump hér á Kaktusinum. Því hann er í mínum augum holdgervingur svo margs sem ég hef óbeit á, fyrst og fremst lágkúrunnar.

Fyrst ég er byrjaður að þusa get ég ekki orða bundist yfir þeirri þróun sem virðist vera að hefjast í bókaútgáfu (þar liggur áhugi minn). Woddy Allen, leikstjórinn skrifaði æviminningar sínar og forlagið Hachette í Bandaríkjunum ákvað að gefa þær út og var langt komið í útgáfuferlinum þegar nokkrir starfsmenn forlagsins mótmæltu því að bókin yrði prentuð á vegum forlagsins og hótuðu að ganga út. Fannst þeim ótækt að forlagið gæfu út bók eftir mann sem ásakaður er um kynferðislegt ofbeldi. Woody hefur aldrei verið dæmdur fyrir slíkt og hefur hingað til sagst vera saklaus. En forlagið hætti við eftir þrýsting frá starfsmönnum og fjölskyldu Allens sem hefur verið mjög virkt í baráttu sinni gegn honum. Réttlætir þrýstingur frá starfsfólki, ásakanir fjölskyldu eða bara stemmning meðal almennings að hætta við slíka útgáfu eða er þetta hættuleg braut sem forlagið velur: að dæma mann úr leik og gera orð hans á þennan hátt ómerk? Þarf maður að vera með hreint sakavottorð til að fá æviminningar sínar gefnar út?

Og hvernig verður þetta í framtíðinni. Hversu hreinan skjöld á frægðarmaður að hafa til að réttlæta útgáfu sjálfsævisögu. Og hver á að dæma um hvort leikstjórinn, leikarinn eða fótboltamaðurinn sé verður að fá útgáfu á ævisögu sinni. Er það hreint sakavottorð sem ræður, samþykki fjölskyldunnar, eða er það orðsporið, þetta svífandi og óljósa hugtak sem á að vera afgerandi?

ps. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan eru trén farin að laufgast, merki vorsins … allt á uppleið eða þannig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.