Espergærde. Allt nema eitt.

Hvers vegna pínir hún mann þessi mjóa rödd í hausnum, röddin sem minnir á að hver og einn er einstakur, eða nákvæmar: stakur og einn. Sennilega fer maður að taka eftir þessari rödd þegar maður finnur fyrir sársauka, þá allt í einu verður þessi innri rödd svo skýr. Maður er einn um sársaukann; einn þegar tungan brennur, einn um tannpínuna og enginn annar getur fundið þennan sama sársauka og enginn getur víst mælt hversu mikill hann er. Með árunum rennur upp fyrir manni – sama hversu mjög maður er elskaður – að enginn á eftir að skilja mann í alvöru.

Ég minnist á þetta hér eftir að hafa átt samtöl við félaga mína hér í Danmörku í gær sem skyndilega finna fyrir þessari víruskreppu af fullum þunga og það veldur sannarlega örvæntingu og kvölum. Engar pantanir, engin verkefni framundan, engar tekjur … núll. Og hvað gerir maður þá? Hvað á maður að gera?

En sólin er allt í einu farin að skína hér í Danmörku eftir langa vætutíð. Það var gott að ganga og láta sólina anda á sig. Ég tók aukahring á leiðinni til vinnustofunnar – fór samt ekki í kirkjugarðinn, nóg er um dauðann í kringum mann. Ég íhugaði meira að segja að fá mér cookie í bakaríinu sem var á gönguleiðinni en hætti við því ég var nógu skarpur til að vita að ég fæ ekkert út úr því að borða svona sæta köku. Nú er kaffið búið á vinnustofunni minni og ég hef ekki hugsað mér að kaupa meira kaffi – ekki fyrr en ritstörfin verða svo sjálfbær að þau bera kaup á kaffipoka.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.