Sumum þykja það kannski tíðindi að í ljós kemur að 67% af öllum seldum bókmenntaverkum árið 2019 í Bandaríkjunum voru eftir konur. (Mest selda bókmenntaverk ársins 2019 var eftir Deliu Owens Where the Crawdad’s Sing, sem seldist í 1,2 milljónum eintaka.)
Ekki kemur mér á óvart að konur eru farnar að selja fleiri bækur en karlar. Þeir tveir einstaklingar í Bandaríkjunum sem hafa mest áhrif á sölu eru konur: Oprah Winfrey með ógnarvinsælan sjónvarpsþátt um bækur og er með bókaklúbb sem tengist þættinum. Hin konan er Reese Witherspoon sem rekur The Hello Sunshine Book Club. Hún velur bara bækur eftir konur í klúbbinn sinn og hefur gífurleg áhrif á sölu.
Ég sá líka lista yfir þær konur sem hafa seld flest eintök bóka í USA síðan 2004. Svona lítur sá listi út:
1 J. K. ROWLING 55 milljón eintaka.
2 NORA ROBERTS 45 milljón eintaka.
3 MARY POPE OSBORNE 44 milljón eintaka.
4 STEPHENIE MEYER 38 milljón eintaka.
5 JANET EVANOVICH 26 milljón eintaka.
6 DEBBIE MACOMBER 24 milljón eintaka.
7 SUZANNE COLLINS 22 milljón eintaka.
8 SANDRA BOYNTON 22 milljón eintaka.
9 E. L. JAMES 21 milljón eintaka.
10 DANIELLE STEEL 20 milljón eintaka.
Það var nú bara þetta sem ég var að velta fyrir mér í gærkvöldi þegar ég var búinn lesa minn skammt af hinni frábæru Donnu Tartt. Svakalega er hún góður höfundur, þykir mér. En til að vega upp á móti öllum hinum útlenska litteratur sem ég skófla í mig, hlusta ég nú í gönguferðum mínum á lestur Róberts Arnfinnssonar á Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Mér þykir lestur leikarans góður en aldrei hef ég dottið aftur fyrir mig af hrifningu á Aðventu. Ég geri samt enn eina tilraun til að falla fyrir bókinni, las meira segja ansi fínan eftirmála um Aðventu eftir Jóns Kalman í gærkvöldi til að reyna opna fyrir hrifninguna. Ég bíð enn eftir að himnarnir opnist.
ps Annars er ég eiginlega hættur að geta lesið dagblöðin mér þykir allt þetta fár svo niðurdrepandi. Ég er eins og strútur; ég sting höfðinu ofan í sandinn og ætla að hafa hausinn þar alveg þangað til vorið er komið og meira birta farin að lýsa upp heiminn.
ps. Kvöld- og morgunmyndir

