Espergærde. Enginn facebook-trúður.

Ég færi það til dagbókar að ég er kominn með skáldkonuna Donnu Tartt á heilan, ég les hvert viðtalið á fætur öðru við þennan dularfulla höfund á meðan ég plægi í gegnum bækur hennar. Ég hef gaman af Donnu í viðtölum því hún er einn af þeim höfundum sem kann þann leik svo vel að gera sig áhugaverða með því að halda nákvæmlega réttum upplýsingum fyrir sig. Hún hefur rétt útlit, hún velur af kostgæfni staðina þar sem viðtölin fara fram og það er hún sem allra náðasamlegast veitir viðtöl. Hún sækist ekki eftir athyglinni, hún sækist ekki eftir viðtölum heldur veitir hún þau náðasamlegast. Hún er ekki facebook-trúður, heldur mætir hún í fá og vel valin viðtöl. Hún er eksklusiv.

Og svo er hún skemmtilega brjáluð í viðtölum, kastar fram setningum sem auðvelt er að setja í fyrirsagnir og vekja athygli. Hún ýjar að ýmsu til að kynda undir mystíkina og það gerir hana áhugaverða. Ég hef gaman af þessu.

En ég nenni ekki að lesa dagblöðin þessa dagana mér finnst leiðinlegt að lesa um þennan sjúkdóm og útbreiðslu hans. Ég er ekki hræddur við hann. Mér finnst hann bara keyra allt það góða og skemmtilega í kaf. „Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin …“ Ég er jafn sannfærður og áður að ef maður ástundar réttlæti og kærleika öðlast maður líf, velgengni og heiður. Einmitt undir þessum myrka himni er mikilvægt að minna sjálfan sig á slíkt.

Í gær sendi ég nýjustu afurð skrifverkstæðisins á áfangastað og strax í gærkvöldi fékk ég viðbrögð sem ýttu undir bjartsýni mína og gleði. Ég hlakka til að takast á við nýtt verkefni á mánudaginn.

ps. Mér þótti fyndið að Númi og félagar hans ákváðu að fara á virtual-fyllerí í gærkvöldi. Þeir sátu hver við sinn skerm, hver í sínu herbergi og ræstu eitthvað tölvuprógram þar sem allir gátu talað saman, drukkið bjór og fíflast. Og haft þannig félagsskap af hver öðrum í einangrun sinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.