Espergærde. Hið nýja finna-bók-app + ps.

Ég stóð lengi fyrir framan eina af bókhillum fjölskyldunnar í gærkvöldi og velti fyrir mér af hverju ég finni aldrei þær bækur sem mig vantar þá stundina. Í gær ætlaði ég að skoða Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, ég hafði hlustað á lestur Róbert Arnfinnssonar á þessari stuttu sögu og langaði bara að skoða bókstafina, sjálfan textann. Ég veit að ég á þessa bók einhvers staðar, ég gaf hana út fyrir mörgum árum – ég á þó langt frá því allar bækur sem ég hef gefið út. En ég fann bókina ekki – ég er viss um að allt í einu spretti bókin upp þegar ég leita að einhverju öðru.

En það var ekki bara bókamissirinn sem angraði mig heldur almennt fór það dálítið í taugarnar á mér að ég finn aldrei þær bækur sem mig vantar og það var einmitt viðfangsefni hugsana minna. Hvað gæti ég gert? Það er gersamlega andstætt eðli mínu að hafa kerfi, stafróf, litaraðir, eða ég veit ekki hvað, þannig virkar bara hausinn á mér ekki. Ég er að sumu leyti óreiðupési því mér leiðast beinar línur, ganga án þess að hrasa. Því datt mér í hug hvort væri ekki bara hægt að finna eitthvað app sem reddaði málunum, app sem benti á þær bækur sem mann vantaði þegar maður beindi símanum í átt að bókahillunni?

En hvað um það, Jón Karl skoraði á mig að setja aftur gang í Bókaskápinn og skrifa um heim bókanna og leggja höfuðáherslu á skemmtun og gleði, forvitnilegar skemmtisögur af bókum og skáldum. Við höfum af og til endurlífgað Bókaskápinn, birt greinar á hverjum degi og skrifað til skiptis. Annars þyrftum við kannski að virkja fleiri fjörpenna til að skrifa skemmtisögur úr heimi bókmenntanna …. Meira fjör, meiri gleði …

ps. Eiginlega þyrfti að búa til gífurlega öflugan bókmenntafjölmiðil þar sem bókmenntaáhugamenn geta fengið fullnægt sinni fréttaþrá úr heimi bókmenntanna; alltaf nýjar og áhugaverðar skemmtifréttir. Á sama hátt og fótbolti.net er sá staður sem íslenskir fótboltaáhugamenn lesa sínar fótboltafréttir, RUV.is þar sem fréttafíklar fá nýjustu tíðindi frá veröldinni … yrði Bókskápurinn hinn alltumlykjandi fréttamiðill fyrir íslenska bókaútgáfu. Já, já, einmitt. Það yrði að minnsta kosti tilraun til að vega upp á móti þeim leiðinda spíral sem snýst hratt niður og enginn virðist hafa kraft til að stöðva

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.