Espergærde. Eitthvað verður maður að gera fyrir … (fyllið inn í eyðuna).

Það var bankað á gluggann hér á vinnustofunni í morgun. Ég var nýsestur bak við tölvuna. Ég hafði komið óvenju seint enda drollaði ég á leiðinni. Settist á sporð baðbrúarinnar og horfði yfir til Svíþjóðar. Ég gleymdi mér í eigin þönkum þarna úti á baðbrúnni og hrökk upp úr eigin huga þegar skyndilega stóð allsber, gamall maður yfir mér á leið ofan í sjóinn til að fá sér sundsprett. Ég dreif mig aftur af stað og var fljótur að koma mér að verki; settist strax við tölvuna og byrjaði á mínu bauki. Ég rýndi einbeittur á skjáinn svo ég varð ekki var við að einhver stóð fyrir utan gluggann hjá mér. Það var sem sagt ekki fyrr en það bankað var á rúðuna að ég leit upp. Það er bjart úti, sólin skín en það er líka kalt og það sást á ungu konunni sem stóð við gluggann minn og veifaði. Hún var kappklædd og nefið á henni var rautt af kulda. Hún var berhent og húfulaus.

Ég stóð auðvitað á fætur til að heyra hvað konan vildi mér. Ég kannast vel við hana því hún gengur næstum því á hverjum degi framhjá glugganum hjá mér og alltaf fæ ég glaðlega kveðju frá henni. Oft hefur hún hund í eftirdragi, lánlausan rakka sem virðist vera búinn til úr gömlum, þæfðum ullarsokk og gúmmíteygjum. Hann hangir svo illa saman, hundurinn, en hann gengur samt trúfastur á eftir konunni. Sjálf er hún með gífurlega langar, brúnar rastafléttur bundnar í eina svarta tauteygju á miðju baki.

Ég opnaði dyrnar og í stað þess að koma til mín eins og hún er vön, bakkaði hún eitt eða tvö skref til að halda nægjanlegri vírussmitfjarlægð..
„Hæ, ég ætlaði bara að heyra hvernig þú hefðir það,“ sagði hún og brosti.
Ég svaraði henni að ég hefði það fínt, ekkert amaði að mér annað en ég saknaði að hitta og tala við fólk.
„Ég hitti heldur enga, þess vegna fannst mér svo freistandi að banka á gluggann hjá þér. Þú með allar þínar bækur skilur örugglega neyð mína,“ hún hló. „Annars er ég að æfa mig í æðruleysi. Ég æfi mig í að sætta mig við hin mannlegu grunnskilyrði: ég dey … að lokum … Ég æfi mig í að ímynda mér að ég missi allt sem ég á. Ég vil venja mig við tilhugsunina. Venjulega hugsa ég akkúrat þveröfug: ég sé fyrir mér hvernig ég yfirstíg hindranir til að ná mínu persónulega marki … en það er búið núna. Ég sætti mig við algjört hrun …“

Þegar ég hafði kvatt þessa spengilegu konu og fylgst með henni þar sem hún gekk fött upp götuna með hundinn í eftirdragi settist ég við skrifborðið mitt. Ég sætti mig ekki við dauðann, hugsaði ég, ég venst ekki tilhugsuninni um dauðann, ég venst ekki tilhugsuninni um að missa allt.. Nú ætla ég að skrifa um Atómstöð, Halldórs Laxness fyrir bókaskápinn. Eitthvað verður maður að gera fyrir bókmenntirnar, ekki mega þær deyja eins og allt annað.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.