Espergærde. Ennin (ekki líkamshluti) þrjú

Mér hefur aldrei geðjast að nískupúkum og þá á ég við nískupúkar í hinni víðustu merkingu; sem sagt menn sem skortir hjartans örlæti; eða eins og sagt er: sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða nauðung.

Mér hefur heldur aldrei líkað við nöldursama einstaklinga; menn sem þefa eilíft upp leið til að finna að; pota með sínum besservisserfingrum. Að þess konar neikvæðni hef ég heldur aldrei laðast.

Níska, neikvæðni og nöldur – ennin þrjú eins og lífsspekingurinn vinur minn kallar þessi persónuleikaeinkenni – eiga sem sagt ekki upp á pallaborðið og ég nefni þetta hér því undanfarna daga, kannski vegna áhrifa vírusfaraldursins, hef ég orðið var við þessi leiðinlegu ólundareinkenni hjá annars ágætum einstaklingum sem ég hef verið í sambandi við í tengslum við lítið verkefni sem ég hef ákveðið að taka að mér. Ég leita eftir hinum glaða gjafara.

Undanfarna daga hef ég blaðað í stórfínni bók Halldórs Guðmundssonar um þjóðskáldið Halldór Laxness. Ég hafði fyrir tilviljun lesið í útlendu riti að bók Laxness, Atómstöðin „hefði strax selst upp á útgáfudegi en bókin kom út 22 mars 1948.“ Í hinni útlendu grein var ekki tiltekið í hvaða landi bókin hefði selst svo hratt þennan síðvetrardag rétt eftir stríð. Þótt mig grunaði að greinarritari hafi átt við að bókin hefði verið rifin út af æstum bókaunnendum á Íslandi ákvað ég samt að lesa um Atómstöðina í ævisögu Laxness. Jú, auðvitað kom í ljós að hinn útlendi greinarhöfundur dásamaði hina gífurlegu vorbóksölu á Íslandi.

En nú eru liðin 72 ár og sennilega hefur bóksölu hrakað á Íslandi á þessum árum, – eða hrakað, það veit ég ekkert um – að minnsta kosti er hún öðruvísi, bóksalan. Á toppi metsölulista Eymundsson fyrir vikuna 16-23 mars í ár (2020) er enginn Laxness, heldur þrjár þýddar bækur eftir hina ágætu höfunda Ann Cleeves, Roy Jacobsen og Trevor Noah og sennilega eru bækur úr fyrsta upplag þessara bóka enn fáanlegar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.