Espergærde. Hið syfjulega tónfall ofurkúl viðskiptavinar apóteks.

Vinkona mín, erótíska skáldkonan, stóð fyrir utan apótekið í morgun, hallaði sér eiginlega upp að dyrunum án þess að vera á leiðinni innfyrir þótt apótekið hefði opnað fyrir nokkrum mínútum. Ég átti erindi í apótekið svo ég þurfti að smeygja mér fram hjá henni til að komast inn, en á sama tíma hafði ég ekki áhuga á að koma of nálægt henni á vírussmittímum.

Ég heilsaði henni því vinsamlega og gaf með líkamstjáningu – hvernig maður tjáir slíkt með líkamanum get ég ekki alveg lýst, en það er til einhver hreyfing sem allir skilja: ég þarf að komast framhjá – í skyn að ég skyldi inn og hún þyrfti að færa sig.

„Nei, ert þetta þú! Fyrirgefðu. Ég stend hérna alveg eins og álfur, ég er auðvitað fyrir,“ sagði hún rótaði ofurlítið í ljósum hárkrullunum.
„No worries,“ sagði ég í mínu ofurkúl og syfjulega tónfalli. Ég smeygði mér framhjá henni og opnaði dyrnar en þá skaust hún fram fyrir mig og inn um dyrnar með allar sínar leðurtöskur hangandi utan á sér (þetta er víst bara ein taska en mér finnst alltaf eins og þær séu margar, slík er fyrirferðin).
„Fyrirgefðu,“ endurtók hún. „Takk fyrir að opna dyrnar. Ég þorði nefnilega ekki að snerta hurðarhúninn. Vírusinn, þú veist. Takk fyrir að opna fyrir mig.“

ps Á leið minni út í apótek gekk ég framhjá brautarpallinum hér í bænum. Á þessum tíma dags – sem sagt snemma morguns – er alltaf fjölmenni standandi húkandi yfir símum sínum að bíða eftir járnbrautarlestinni til Kaupmannahafnar. En eins og sjá má á ljósmyndinni sem ég smellti af á ferð minni þarna um má sjá að ekki er einn á leið með lestinni í morgun. Hér er allt gersamlega lamað.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.