Espergærde. Hinn banvæni kokteill

Í dag er föstudagurinn 27. mars, afmælisdagur bróðir míns og dagur til að kveikja á ljóskösturunum út í Viðey. Ég hef að minnsta kosti heyrt að Yoko hafi rætt við einhverja um að ýta á rofann í kvöld og senda ljóssúlur upp í himinhvolfið.

Kaktusinn er ekki játningadagbók. Dagbókin er ekki komin í heiminn til að vera vettvangur fyrir syndajátningar mínar, lýsing á yfirsjónum, brestum og kostum. En hjá því verður ekki komist að þeir sem lesa dagbókina dragi sínar ályktanir um þá persónu sem á hverjum degi hellir úr skálum sínum yfir þessar síður. Í gær voru viðbrögðin við Kaktusnum óvenjulega lífleg. Ég hafði svo sem ekki skrifað neitt í gær sem vakti lesendur til að ávarpa hinn langa Íslending. Tilviljun réði því að það var einmitt í gær að kveðjurnar bárust. Að sjálfsögðu gladdist ég hér í þögninni yfir öllum bréfunum. Venjulega skrifa ég bara út í tómið og fæ hvorki viðbrögð né vænti þeirra. Á hverjum morgni sit ég hér á vinnustofunni og hef daginn á að skrifa eina stutta færslu og yfirleitt hef ég ekki leitt hugann að efninu áður en ég sest niður. Stafirnir hópast upp, orðin, setningarnar og á endanum birtist hugsun dagsins. Svona gerist þetta.

En Kaktusinn er ekki játningadagbók, ég hef ekkert að játa fyrir öðrum en sjálfum mér. Það var einmitt þetta sem ég hugsaði í morgun þegar ég hafði lokið morgunkaffinu. Ég hafði borðað hafragrautinn, ég hafði sett hnetur og ólífuolíu ofan í grautinn. Ég hafði drukkið tvo bolla af kaffi, ég hafði látið dagblaðið liggja án þess að lesa staf í því. Sú pressa sem kórónavírusinn leggur á fólk og dagblöðin kynda undir – auðvitað mismunandi hvernig fólk skynjar þetta álag – fer illa í mig og ofan á þá afkastapressu sem ég er heltekinn af verður kokteillin hálf banvænn. Ég þvinga mig áfram til að afkasta og þegar ég lendi á hindrunum eins og ég hef hnotið um síðustu daga eykst spennustigið inn í mér. Því lakari sem mér finnst afköstin vera því hærra verður hið innra spennustig og í morgun var ég við að bresta. Þótt ég sé ekki smitaður af þessari skelfilegu veiru fann ég að ég átti erfitt með andardrátt, ég var samanherptur. Það lá við að ég færi að vola þvílík var spennan inn í mér.

Ég flýtti mér því af stað til vinnu, gekk þungt hugsi í sólinni yfir mannautt skólaplanið, eftir sólbökuðum gangstéttunum í átt til vinnustofunnar. Ekki hvarflaði að mér að taka aukagöngutúr í morgun. Nú þarf ég að finna leið til að minnka þrýstinginn á suðukötlunum inni í mér. Sennilega sest ég bara á stólinn minn hér í horninu og les í klukkutíma og tel mér trú um að það sé í lagi, segi við sjálfan mig að afköst eru ekki endilega mælikvarði á getu, dugnað eða hvað það nú er sem góð afköst eiga að sýna.

ps. Í gær birtist grein hér og af einhverjum ástæðum drógu einhverjir þá ályktun að ég, af öllum mönnum, hefði í huga að gera „comeback“ í íslenska bókaútgáfu. Ég fullvissa þá sem hafa áhyggjur af því að svo er ekki. Einn bréfritari sagði við mig í gær að það gerðist bara akkúrat ekkert á íslenskum bókamarkaði. Þar væri „meira logn en á botni vatnsglass og því væri ekki skrýtið að ef einhver skrifað um sviptingar á íslenska bókamarkaðinum að fólki yrði brugðið og hrykki upp af langvarandi svefnmóki sínu.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.