Espergærde. (…)

„Það er sjaldnast áhugavert hvernig maður sér sjálfan sig heldur er hið áhugaverða hvernig aðrir sjá mann,“ sagði félagi minn rithöfundurinn í gær þegar hann kom í heimsókn og drakk bjór hér úti á palli í tveggja metra fjarlægð. Hann hafði hringt til mín frá Kaupmannahöfn: „Ég er að gefast upp,“ sagði hann. „Fólk trúir því kannski ekki en ég er að niðurlotum kominn í þessari einveru. Ég er dauðhræddur við að deyja og ég treysti mér ekki til að fara út, þessu trúir fólk ekki. En ég skil fólk, ég hef innlifunarhæfni og því skil ég hvernig fólk sér mig.“

Svona lætur félagi minn dæluna ganga hér á veröndinni hjá mér eftir „þriggja vikna einangrun,“ þar sem hann hefur ekki gert annað en að „næra dauðaóttann í einsemd sinni …. Snæi, geturðu ímyndað þér eymdina?“

Ég næri aftur á móti ekki óttann við að deyja. Ég geng mína fínu göngutúra út á akrana þar sem ekki er sála. Ég feta litla stíga með grænt gras á báðar hendur og þar er ekki manneskju að sjá svo langt sem augað eygir.

Hér, þar sem ég er, er kominn sumartími sem þýðir að ég er tveimur tímum á undan heimalandi mínu; þegar ég vakna klukkan sex er klukkan fjögur á Íslandi. Og þegar ég les morgunblaðið hér í Danmörku, sem um þessar mundir eru fullt af bókaauglýsingum (það er aldeilis bjartsýni hjá útgefendum, hugsa ég) liggja allir mínir Íslendingar, sem ég hugsa svo oft til, á sínum græna eyra og hrjóta út í koldimma nóttina. En hér birtist myndasería með þremur heilsíðuauglýsingum í dagblaðið dagsins (þær voru miklu fleiri bókaauglýsingarnar …)

Bókaauglýsingar í mars í Danmörku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.