Espergærde. Tilvistaróttinn

Ég á það til að vakna á ólíklegustu tímum um miðja nótt. Og það gerðist í nótt klukkan tvö – ekki af því að ég þyrfti að pissa, eða að ég væri þyrstur, ekki vegna þess að ólæti voru í veðrinu, ég bara vaknaði – og svo ligg ég og velti vöngum þar til, seint og um síðar, að ég sofna aftur.

Það sem leitaði á hugann í nótt var viðtal við danskan heimspeking sem ég las í gær – í rauninni ansi gott viðtal – eitt af þessum sjaldgæfu viðtölum þar sem maður verður dálitið snortinn eða finnst maður hafa lært eitthvað nýtt. Þannig var það með þetta viðtal og það leitaði mig upp í nóttinni, vakti mig af svefni og hélt fyrir mér vöku. Honum var tíðrætt um það sem hann kallaði tilvistarótti sem lýsir sér í að vera eilíflega hræddur um að standa sig ekki. Mér þóttu lýsingar hans á þessu grundvallarótta bæði áhugaverðar og einlægar.

Annað sem hélt fyrir mér vöku var litla húsið mitt á Ítalíu sem stendur aleitt í ólífulundinum og enginn hugsar um það. Allt er lokað á Ítalíu og enginn hreyfir sig. Og allt í einu fór ég að hafa áhyggjur af hnignun hússins. Svona er það að eiga fasteignir, það fylgja þeim stundum bara áhyggjur.

Ég hóf morguninn á að klára að lesa bókina Þerapistinn, eftir Helene Flood sem kemur væntanlega út á íslensku þegar eitthvað fer að rofa til undir hinu þykka vírusskýi. Ég las bókina eftir áskorun frá íslenska útgefandanum sem er svo viss um að þetta sé besti krimmi sem komi út á íslensku í ár. Bókin hefur sannarlega notaði mikillar velgengni út í hinum stóra heimi. Þetta er fyrsta bók ungrar, norskrar konu, sálfræðings, og var seld til fjölmargra landa (að minnsta kosti tuttugu) áður en hún kom út í heimalandi höfundarins, Noregi. Þetta er svokallaður þriðja stigs success. (Viðurkenning og sala í útlöndum.) Ég játa að ég féll ekki kolflatur fyrir bókinni, enda geri ég það sjaldan, en sagan hélt mér og það tók mig ekki langan tíma að klára bókina. Mér þótti þýðing Höllu Kjartansdóttur afbragðsgóð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.