Espergærde. Nýr starfsferill

Í morgun bönkuðu tveir menn á skrifstofudyrnar hjá mér. Ég sá að þeir höfðu komið á stórum sendibíl og voru harla vígalegir.
„Varst þú að panta bíl?“ spurði sá stærri þegar ég hafði bent honum á að koma inn.
„Nei, ég hef ekki pantað bíl. Ég þarf ekki á bíl að halda,“ svaraði ég manninum kurteislega.
Félagi hans leit í pappíra sem hann hafði í höndunum og sagði svo, „Nei, það er í húsinu þarna,“ og benti á fína húsið handan götunnar.
„Fyrirgefðu, ónæðið,“ sögðu þeir og ætluðu að loka dyrunum þegar sá vígalegri sneri sér aftur að mér og spurði: „Hvað er þetta?“ Hann leit í kringum sig á vinnustofunni til að gefa til kynna að hann meinti hvað færi fram innan veggja vinnustofunnar.
„Ja,“ sagði ég og hikaði. Ég er enn feiminn við að segja að ég skrifi bækur. Nú er meira en mánuður síðan ég skilaði seinustu þýðingu svo ég gat ekki sagt að ég væri að þýða bækur. „Ja … ég skrifa bækur.“
Þessar upplýsingar virtust vekja áhuga mannsins því hann steig nokkur skref inn á vinnustofuna.
„Skrifarðu bækur? Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa … “ Síðan komu langar útlistanir á hvað hann hefði verið góður til að skrifa í skóla … „Hvað færðu fyrir að skrifa eina bók?“

Ég hló með sjálfum mér en ég vissi ekki hverju ég skyldi svara manninum. En ég sagði honum nokkurn veginn frá þeim reiknireglum sem gilda og hvað maður fær að meðaltali fyrir bók ef hún selst í 1500 eintökum.

„Í hvaða gjaldmiðli ertu að tala um?“ spurði maðurinn undrandi þegar ég hafði upplýst upphæðina.
„Í þínum gjaldmiðli, dönskum krónum.“
„Þetta er minna en mánaðarlaun mín á sendibílnum. Hvað ertu eiginlega lengi að skrifa bók?“
Ég sagði honum það.
„Ehhh … ég held ég haldi áfram að keyra sendibílinn,“ sagði hann og fórnaði höndum. Ég sá að hann var heldur vantrúaður á að ég segði honum satt og hafði mig örugglega grunaðan um að vilja halda sterkum samkeppnisaðila frá ritvellinum.

Ég man þegar ég vann sjálfur sem forleggjari á Íslandi og ég barðist sannarlega í bökkum í upphafi rekstursins. Ég hafði stundum svo gífurlegar áhyggjur af fjármálunum að ég hugsaði daga og nætur um hvernig ég gæti bjargað mér úr fjármálaklípunni. Mér datt stundum í hug að loka forlaginu og fara að keyra sendibíl. Ég hef alltaf sagt að einn af mínum bestu eiginleikum er hvað ég er góður að bera, ég get borið þunga hluti langar leiðir. Ef ég skil þessa tvö beljaka sem bönkuðu á skrifstofudyrnar rétt, þá hefði það kannski verið ágæt leið til að bjarga efnahagnum. Ég er enn góður að bera og ef mér tekst ekki að skrifa magnaða metsölubók á næstunni get ég kannski snúið mér að sendibílastarfinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.